Friday, October 19, 2012

Föstudags.

Önnur vika senn á enda, önnur helgi að ganga í garð.

Vikan hefur einkennst af lærdómi eins og svo oft áður þessa önnina. Það er líka bara ágætt, nú er svona miðjan á önninni sem þýðir að ég er hálfnuð. Sem er skemmtilegt en ógnvekjandi í senn þar sem það er stuttur tími eftir en mikið sem á eftir að gera. Nú er allt brjálað í verkefnaskilum, miðannaprófum og kennararnir velja yfirleitt sömu vikuna til að smella öllu inn. En það þýðir bara að maður þarf að spýta í lófana til að halda við.

Ég er orðin rosalega spennt fyrir jólunum, ég hef örugglega minnst á að einhvern tímann áður en þetta er minn allra allra uppáhalds tími. Ég fæ hlakk í magann í hvert einasta skiptið sem einhver segir jól eða ég sé eitthvað sem tengist jólunum. Þess vegna fékk ég mikið hlakk í magann síðustu helgi sem við sambýlismaðurinn eyddum á Skaganesinu góða.

Í skírnarveislunni hjá þeim Friðþóri og Ingu þar sem gullmolinn þeirra Elías Íbsenn fékk nafnið sitt var á boðstólnum þessi dásamlega humarsúpa. En humarsúpa er alltaf forréttur á Skagabrautinni á aðfangadagskvöld, svo vorum við Raggi í pössunarstörfum um kvöldið og fórum í mat til tengdó og fengum þar Bayonne skinku, brúnaðar kartöflur og baunir. Það kom yfir mann þvílíki jólafílingurinn!!

Smá systranús


Í hjólatúr þar sem mín kæra systir tilkynnti mér það að foreldrar Glanna Glæps hétu Dardý og GölliSölla. Það er ekkert lítið gaman að vera hlustandi stundum þegar mín fer að semja sögur.

Spilað á Bjarkagrundinni eftir kvöldmáltíðina góðu.

Ekki skemmdi fyrir þegar við Raggi fórum í Ikea eitt kvöldið í vikunni og það var jólatré og jólaskraut í hverju horni. Raggi sannfærði mig um að það yrði nú eitthvað eftir í desember og ég var eins og lítið barn í dótabúð með fullt fang af jólaskrauti sem ég ætlaði að kaupa en endaði á að skila!! En ég ákvað nú að það væri líka gaman að eiga þessa skemmtiferð inni.

Eitt af jólatjánum fallegu.

Ég fer bráðum að verða alveg óþolandi bloggari sem bloggar endalaust um jólahefðir og jólaskreytingar en ég ætla að spara mig örlítið.

Gærvköldið lét bíða eftir sér með eftirvæntingu. Ég fékk stelpurnar mínar í langþráða heimsókn á Tjarnargötunni og við áttum notalega kvöldstund sem endaði í miðbæ Reykjavíkur í smá pöbbarölt. Við ákváðum að hafa þetta ansi einfalt og fínt og ég hafði heyrt um veislubakka frá Saffran og þeir ollu sko engum vonbrigðum. Kjúklingur, lax, tígrisrækjur og toscana skinka ásamat alls kyns grænmeti og mismunandi sósum. Þetta kom klárt á bakka svo eina sem var eftir var að njóta, og við áttum ekki í vandræðum með það. Svo var það kalt bús, ritz kex, ostar, notaleg tónlist og svo bara spjallað. Ekki slæmt kvöld það.

Áður en Daisy kom, svo styttist líka í USA skvísurnar og að við verðum allar
sameinaðar á ný :)

Snilldarlausn (meira á = http://saffran.is/veisluthjonusta/samlokubakkar)

Ég var einnig í smá föndurstússi í vikunni, ég dett öðru hverju í þann pakkann og hef alltaf gaman að. Þó ég verði seint talin sleipasti föndrarinn þá finnst mér alltaf skemmtilegt að prufa mig áfram í þeim efnum.


Ég var orðin rosalega þreytt á að horfa alltaf á tengingarnar á ísskápnum og örbylgjuofninum frá stofunni svo ég notaði efnisbút sem átti og gerði skilrúm. Þetta er reyndar tímabundin lausn en draumurinn er að taka striga sem er jafn stór, mála einhvern fjanda og setja á milli. Það er verkefni komandi vikna!!


Ég keypti pappastafi í Tiger sem konan í búðinni ráðlagði mér að mála ekki, sökum þess að pappinn myndi líklega draga í sig málninu. Ég fór auðvitað beint heim, náði í afgangsmálninguna frá því að við máluðum vegginn og smellti á stafina. Það var minnsta málið og svo var stöfunum skellt uppí hillu þegar þeir höfðu þornað. Raggi gubbaði næstum úr væmni en hann verður bara að lifa við þessi ósköp. 



Útkoman er tileinkuð deginum okkar Ragga sem er á morgun 20. október og þá munum við gera eitthvað voða skemmtilegt saman. Hlakka til!

Ég vona að þið eigið allra bestu helgina, takk fyrir að lesa!

Ykkar
Líf.

No comments:

Post a Comment