Monday, September 3, 2012

Fisk á minn disk.

Og hananú.

Nei það er svolítið skondin saga á bakvið fiskilystina mína.

Þegar ég var lítil og alveg frá 1 árs fram til skólaaldurs þá þýddi ekki að bjóða mér neitt annað en fisk, soðin með kartöflum. Svo hætti að vera töff að borða fisk og ég var ein af þeim sem vildi sko ekki fá fisk í matinn og fannst ekkert glataðara.

En ég hugsa að þetta hafi byrjað að gerast þegar ég fór út í fyrra, bæði til Afríku og því næst til Bandaríkjana. Áður höfðum við Raggi reynt að pína okkur í að hafa fisk einu sinni í viku, keypt tilbúin rétt eða í mesta lagi plokkfisk og hent inn í ofn. Ekki það að okkur fannst hann vondur en bara alls ekkert sérstakur.

Svo þegar kom að því að útbúa matseðil vikunnar úti þá tók ég eftir því hvað ég saknaði þess að geta bætt inn fisk. Fiskur kemur svo ferskur inn og öðruvísi og góður valmöguleiki í stað þess að festast í því að hafa alltaf það sama. Fiskurinn var til staðar úti, ekki misskilja mig og eflaust eru það hreinir fordómar en mér leist ekki nógu vel á fiskinn. "Ég væri nú einu sinni frá Íslandi og væri vön því besta"

En hvernig hef ég nýtt mér það? Bara alls ekki neitt.

Það var síðan þegar ég byrjaði á Kexinu að augun mín opnuðust fyrir alvöru fyrir fiski og fiskréttum. Það er nánast á hverjum einasta degi fiskur í staffamatinn og ég var nú ekki alveg nógu spennt í byrjun ég viðurkenni það alveg. Hvernig átti ég að fara venja mig á að borða fisk alltaf? Alltaf eins, ýsa í sósu eða?

En það var alls ekki raunin, þvert á móti voru töfraðir fram dýrindis fiskréttir úr mismunandi fiskitegundum og ég fékk að njóta.

Ástæðan fyrir fiskiólöngunni minni er alls ekki bragðið og hefur aldrei verið! Það er tilfinningin sem kemur í munninum á mér þegar ég tygg hann, eins og hálfgerð klígju tilfinnig. Ég get ekki alveg útskýrt þetta en ég hef heyrt fleiri tala um þetta. En um leið og ég sagði sjálfri mér að hætta að pæla í þessu þá sjálfkrafa hætti ég því alveg!

Ég hef í ágústmánuði borðað meiri fisk en ég hef á ævinni gert ef tekin eru út mín fyrstu "soðin-fisk" ár.

Í tilefni þess að skólinn byrjaði í dag og vinnan mun minnka og hádegishléunum á Kex fer að fækka hef ég ákveðið að tileinka einum degi vikunnar í matreiðslu á fiski. Ég er staðráðin í því að detta ekki aftur í sömu gildru og áður að kaupa alltaf tilbúin í sósu og skella inn í ofn. Aldrei að vita nema ég skélli því hérna inn og deili með ykkur lesendum. Ég luma nefninlega á góðum uppskriftum frá meistarakokkunum á Kexinu og þær eru sko ekki af verri endanum!

Fiskur dagsins í dag er ; Langa.


"Langa (Molva molva) er af þorskaætt (Gadidae) líkt og margir af okkar helstu nytjafiskum, svo sem þorskur, ufsi, ýsa og kolmunni. Hún hefur löngum verið álitin einhvers konar millistig á milli þorsks og áls enda líkist hún þorski um margt en hefur ílangt vaxtarlag líkt og áll og getur orðið rúmir tveir metrar á lengd." (Fróðleikur í boði vísindarvefsins)


Uppskrift er í boði Proppé á Kex::


Hráefni - (Botn ; Blómkáls-gervikúskús)

Rifið blómkál
Hnetur (helst cashew)
Smjör
Karrý
Salt
Baunir (helst kjúklinga)


Hráefnin í botninn, ég átti papriku svo ég
skellti henni með.
Botninn klár

Má bæta við :

Laukur
Engifer
Hvítlaukur
Lárviðarlauf


Aðferð: 


1) Allt svitað í potti eða pönnu
2) Baunir sett í síðast




Dressing yfir fiskinn - capers vínaígrette

Olía (eftir smekk)
Capers
Saxaður rauðlaukur
Fínrifinn sítrónubörkur
Djús úr sítrónunni
Salt
Kjarnhreinsaðir tómatar

Þessu eru öllu blandað saman og kryddað með salti og sítrónum.



Hér má bæta við:

Olífum, heilum cherry tómötum, rúsínum, möndlum, grænu epli, spínati, steinselju og aspas.

(( Hvað á ég til í ísskápnum?? ))

Aðferð fyrir allt saman:

1) Dreifið kúskús í eldfast mót og myndið botn
2) Raðið bitum af krydduðum fiski yfir (Má vera hvaða fiskur sem er)
3) Sullið kapersvínaígretteinu yfir fiskinn og allt skal síðan bakað í ofni við 200 gráður í 10-20 mínútur eftir þörfum. 
4) Toppið með kálgrasi

Ég eldaði réttinn í 20 mínútur í ofni og bar fram með karrý grjónum og var mjög ánægð með útkomuna!


Úr verður hið fínasta matarboð :)

Svo má alls ekki gleyma ; 

Karamellu - jógúrtmuffins

Rúsínan í pylsuendanum, svo að enginn geti nú fallið í þá gryfju að blóta helvítis fiskinum því maður er strax aftur orðin svangur.

Mæli með að þið prufið!


- Líf

1 comment:

  1. Sjúklega girnilegur fiskréttur - meira svona Líf ;)

    Karí

    ReplyDelete