Sunday, January 29, 2012

Puerto Rico, 80's skemmtun & menningarrölt

Hæhæ,
Klár í slaginn
Frábær helgi á endaspretti. Okkur var boðið í 80's afmæli hjá félaga strákana í liðinu á laugardaginn. Undirbúningur hófst á föstudaginn enda ekki annað í stöðunni hjá okkur Íslendingunum en að taka þetta alla leið. Fórum í Thrift-Mart sem er svona markaður með notuð föt, svipað og Búkolla heima nema töluvert stærra. Þar fundum við þessa fínu búninga. Við Raggi bökuðum síðan gómsæta pizzu um kvöldið og svo tókum við tennisleik í garðinum sem ég malaði illilega :-) Erum að verða svona helvíti fín í tennis!!

Á laugardagsmorgun datt ég í bökunargír í tilefni þess að elskulega litla systir mín varð tveggja ára gömul. Ég útbjó skyrtertu, já skyrtertu! Það tókst eftir að ég fann gríska jógúrt og svo LU kex sem minnti á Homeblest og ég gerði líka kanilsnúða. Í öllum ósköpunum fékk ég svo símtal á Skype-inu þar sem ég fékk að fá púlsinn á afmælisstuðinu heima fyrir. Vigný Lea sýndi mér gjafirnar, söng "Adam átti syni 7" og var bara mesta dúlluskottið eins og henni einni er lagið!


Afmælis-snúlla á Skype
                                         
Jarðaberjaskyrteran

Um kaffileytið komu svo strákarnir og Díana yfir í smá afmælisveislu og ekki nóg með það þá pöntuðum við eitt stykki "utan"landsferð. Já við erum loks búin að koma okkur saman um SprinBreakið eða vorfríið eins og það kallast á góðri íslensku. Við ætlum sem sagt til Puerto Rico í eina viku. Við ætlum að leigja okkur stórt hús saman alveg við ströndinni í höfuðborginni San Juan. Ég er alveg orðin nokkuð spennt og í öllum æsingnum fengu nokkrar velvaldar sumarflíkur að fjúka í körfu á Forever21! ;-)

Meðfylgjandi smá fróðleikur frá Wikipediu;

""""Samveldið Púertó Ríkó er sérstakt sambandssvæði Bandaríkjanna, staðsett austan við Dóminsíska lýðveldið  í norðausturhluta Karíbahafs. Eyjan er minnst Stóru-Antillaeyja en svæðið telur einnig minni eyjar og rif, þar á meðal Mona, Vieques og Culebra. Eyjan er um það bil 1/11 af Íslandi að flatarmáli en íbúafjöldinn er meira en tífaldur fjöldi Íslendinga. Þéttleiki byggðar er því um 120 faldur þéttleiki byggðar á Íslandi."""""
San Juan höfuðborgin


Ströndin  

Um kvöldið héldum við til strákana og komum við á tælenska veitingarstaðnum Phuket en hann er í miklu uppáhaldi hjá okkur Ragga. Fórum með mat þaðan enda ekki hægt að borða í 80's dressinu eins og algjör vitleysingur. Við skemmtum okkur hrikalega vel hjá strákunum og ekki síður í afmælinu seinna um kvöldið. Þetta var mjög fyndið og eftirminnilegt kvöld...






Dagurinn í dag var rólegur, sambýlismaðurinn steikti samlokur eins og honum einum er lagið og við gæddum okkur á þeim og tókum svo smá rölt í miðbænum með krökkunum. Bara notalegur dagur í góða veðrinu. Í kvöld er svipað plan, að gera sem minnst og nota sjónvarpið sem mest.

Við tjörnina í góðu sunnudagsveðri

Planið fyrir vikuna er að vera dugleg að læra & láta mér hlakka til föstudagsins þegar Agnes og Þórður láta sjá sig!!!
XXX Líf


Thursday, January 26, 2012

Smá lærdómspása

Já ég ákvað að taka mér smá hlé frá bókunum til að smella inn því nýjasta úr Suðurríkjunum. Veðrið skánaði talsvert áður en það kom til okkar en við fengum aldeilis ljósasjówið um nóttina í formi þrumna og eldinga! Svo rigndi heilan helling og daginn eftir voru komnar flóðviðvaranir í bænum okkar, en þetta er allt að koma til eftir það.

Myndir frá mánudeginum:
Storms And Flooding 01.23.12

 

Vikan hefur verið fín bara en lítið spennandi. Er búin að vera á fullu gjörsamlega í Hópaverkefni sem við vorum að skila inn í gærkvöldi, vorum sem sagt þrjú saman í hóp og áttum að reisa Skemmtigarð við Eiríksjökul og sýna markaðsáætlun, rekstrar - og fjárhagsáætlanir. Mikil skemmtun og dagurinn í dag fór í að gera glærur sem verða lesnar upp um helgina á svokallaðri vinnuhelgi. Þar sem ég kemst ekki á hana þurfti ég að lesa inn á glærurnar sem var, einhverja hluta vegna rosalega fyndið, átti alveg bátt með mig að sitja ein við eldhúsborðið og lesa inn efni sem verður frumflutt fyrir fullan sal af fólki!? Erfiðara en að vera sjálf á staðnum og lesa? Ég hreinlega veit það ekki.
Það hefur verið gott að eiga góðan nágranna í öllu lærdómssullinu sem pikkar mann upp til að fara í ræktina og  kemur með nýbakaða kanilsnúða yfir til manns en það mun vera hún Díana mín :*
Er einmitt í þessum skrifuðu orðum á leið yfir þar sem ég mun fá nýpressaðan ávaxtasafa úr nýju pressuvélinni þeirra hjúa, ekki slæmt það! Síðan bíður mín Forever 21 sending á skrifstofunni svo það mun klárlega vera næsta verkefni að sækja það. :)

Skóla - Raggi (næst ekki oft á filmu)
Ég fer án alls gríns að verða rótgróin við þennan stól !!!!

Í dag er vika þar til Agnes og Þórður leggja land undir fót og koma í heimsókn á Vatnsendaveginn, get ekki annað sagt en að ég er þrusu mikið spennt. Búin að plana matseðilinn og var að stoppa mig við að byrja að þrífa rúmfötin þeirra, fyrstu gestirnir sem við fáum og spennan kannski enn meiri einmitt þess vegna. 

Verður ekkert leiðinlegt hjá okkur að fá þetta krúttsprengupar í  10 daga!!!

Hef aðeins verið að dúllast meira í íbúðinni, fékk sendingu frá Ebay þar sem ég er búin að vera að vesenast með hvað ég á að setja á vegginn fyrir ofan sófann. Það var orðið svo svarthvítt í stofunni svo að ég vissi að ég vildi setja liti til að fríska aðeins uppá útlitið. Þessir hringir frá Ebay voru bæði einfaldir og ódýr lausn og ég er nú bara nokkuð sátt við þá. Gefa skemmtilega breytingu!  



Í kvöld ætla ég að baka hvítlauksbrauð og gera sveppapastarétt! Er að prófa hann í fyrsta sinn, er svona búin að vera með hann í hausnum, mögulega þar sem að ég elska sveppi. Var að prófa í síðustu búðarferð að kaupa aðeins dekkri sveppi og þeir eru dásamlegir. Svo er þrifdagur og meiri lærdómur svo að það er kannski ekki að undra að ég finn mér ýmis önnur verkefni til að létta á deginum.

Helgin er nokkuð óráðin, Indverskt í hádeginu á morgun og pizzuIdolkvöld! Komnar smá hefðir í mann hérna sem erfitt er að breyta aftur, en þær eru svo sem ekkert slæmar. 80's þema í afmæli hjá Kyle nokkrum úr liðinu hjá strákunum svo maður þarf eitthvað að sansa búning fyrir það. Ætlum svo að taka lokaákvörðun í SpringBreak málum og bóka það sem fyrst enda margir að panta og bóka slíkt einmitt núna. 

Eigið yndislega helgi :*
- Líf

Sunday, January 22, 2012

Róleg & fín helgi að baki

Jæja þá er helgin senn á enda en hún einkenndist af rólegheitum og afslöppun. Á föstudaginn fórum við út að borða Indverskt sem var gott að venju, kvöldið fór í pizzugerð og sjónvarpsgláp. Allt í einu komnar trilljón stöðvar og maður fær nánast valkvíða að reyna að ákveða sig, ekki það að ég hafi fjarstýringuna það oft í hönd að ég þurfi að hafa áhyggjur af því!

Bókabúðin
Núna er ég búin að vera á fullu að vinna í rekstrarhagfræðinni, 2 skilaverkefni eftir helgi svo ég er búin að vera að vesenast helling í því. Hressandi að vakna hálf 5 um nótt að vinna í hópaverkefni, þessi tímamismunur er ekkert alltaf það besta. Um kvöldið var það ítalskt með Díönu og Ragga á stað sem ber nafnið Terranova, þar sem við fengum fyllta sveppi í forrétt sem ég mun seint gleyma ásamt rækjum, pasta og ýmsu góðgæti. Að því loknu gerðum við heiðarlega tilraun til að fara í bíó myndina Contraband en SuðurríkjaKanar eru ekki síður að fýla Baltasar svo það var uppselt!! Í staðinn röltum við í Barnes and Nobles sem er ein uppáhalds búðin mín hérna úti. Keypti mér fyrstu Pretty Little Liars bókina, hef ekki séð þættina reyndar en hef heyrt að þeir séu góðir.







Strákarnir duttu síðan í FIFA stuð og við Díana í föndurstuð, leiðin lá í WallMart þar sem við keyptum í friðarkúlur sem við höfðum séð á Smartlandi fyrir áramót og lengi langað að gera. Við vorum nú ekki lengi að vippa í 4 kúlur sem prýða nú loftin í íbúðinni. 



Klárt í stofunni

Hér má sjá uppskrift af friðarkúlunni en hún birtist á Smartlandi á vef morgunblaðsins ;
http://mbl.is/frettir/sjonvarp/65540/?cat=smartland

Sunnudagurinn var lærdómsdagur frá morgni til kvölds ..... eins skemmtilegt og það nú er :) Að vísu finnst mér rekstrarhagfræði ekki leiðinlegt fag og það er fínt að hafa mikið að gera og verkefnin halda manni aldeilis við efnið.

Fínt eftir lærdómsdaginn að fá nautasteik og
meððí ala sambýlismaðurinn
Fékk skemmtilegar og uppörvandi hvatningar heima í jólafríinu að vera duglegri að blogga og ég ætla að gera mitt allra besta, við Raggi erum svo heppin að eiga tæknivæddar ömmur og afa sem geta fylgst með okkur og fengið fregnir hér, enda ekki allir á fésbókinni.

En eins og staðan er akkurat núna á miðnætti hjá okkur var að koma upp Fellibylavakt eða viðvörun í bænum okkar, við erum nýgræðingar í þessum málum svo við vitum ekki alveg hversu stressuð við eigum að vera. En vaktin stendur yfir frá miðnætti og í alla nótt en við sleppum vonandi að mestu leyti! Samt alltaf mjög óþæginlegt að kljást við svona aðstæður!
Innskot 23. janúar = Veðrið var að mestu leyti liðið hjá þegar það kom hingað til Huntsville, en það var mikil rigning og hér hefur allt verið á floti í dag. Hrikalegt að sjá myndir af nágrannaborgum og bæjum sem fóru mjög illa í þessu veðri.

Látum vita af okkur!
- Líf

Thursday, January 19, 2012

Aftur föstudagur

Góðan daginn.

Strax komin helgi á ný, við hötum það ekkert! Mín verður þó lítið spennandi en ég tileinka henni hópaverkefninu mínu í rekstrarhagfræði. Verkefni tvö sem ég þarf að skila en hitt gekk mjög vel. Svo er nóg efni að glósa svo mér leiðist ekki.
Raggi verður að boltast alla helgina, á morgun eru þeir eitthvað að leika sér í liðinu í eigin deild og svo á laugardag og sunnudag þá eru strákar að koma í "try-out" eða eins konar áheyrendaprufur til að komast í liðið. Svo það verður stuð á þeim gæjum um helgina.

Vikan er búin að vera fín bara. Gott veður en inni á milli rigning og þrumuveður en maður er að vísu farin að venjast því ósköp vel. Ég er búin að vera að læra og síðan kíktum við Díana aðeins í mollið til að tríta okkur smá enda ennþá fullt af útsölum og þeir eru ekkert slæmir Kanarnir, sumardótið kemur bara beint á útsölu núna og þá verður maður nú aðeins að komast í sumarskap og versla smá. Raggi er ennþá að vesenast aðeins í sínum skólamálum. Þurfti að breyta aðeins stundatöflunni sinni en þetta er allt að verða klárt, hann er ekkert að tapa sér úr skólastressi frekar en venjulega þessi elska ;)

Tíminn líður líka svo hratt, á morgun eru tvær vikur í að við fáum fyrstu gestina okkar. Það munu vera Agnes og Þórður en þau ætla að vera hjá okkur í rúma viku, við erum orðin þvílíkt spennt og verður gaman að fá gesti í fyrsta sinn!! Erum byrjuð að plana skemmtilega hluti til að bralla og ég efast ekki um að þetta verði frábær vika.

Erum svona spennt ;; búin að setja upp rafmagnsdýnuna til að prófa!
Virkar helvíti fínt, sofum þarna í nótt til að vera viss um að þetta sé almennilegt fyrir gestina ....
Á morgun er SpringBreak töflufundur en við ætlum að ræða saman um mögulega áfangastaði. Spring Break er sem sagt skólafrí hjá strákunum og þá er heil vika í frí, sem sagt 19. mars - 25. mars og auðvitað helgarnar sitt hvoru megin við. Þá skylst manni að Bandaríkjamenn tryllist alveg og þeytist um landið allt til að skemmta sér og mögulega komast í meiri sól. Það verður spennandi hvað kemur út úr þeim fundi !!
Við ætlum að hittast á veitingarstað sem heitir Indian Sitar og er _þvílíkt_ góður! Höfum farið þangað í ófá skipti á svokölluð Indian Buffet, borgum 8 dollara og svo er bara étið af vild og ekkert smá gott.

Um miðjan dag á morgun kemur svo maður og setur upp sjónvarpsstöðvar hjá okkur, höfum bara verið að horfa úr tölvunni svo að það verður skemmtileg tilbreyting! Að vísu er ég örugglega ekki spenntari helmingurinn í þeim málum :)

Eigið frábæra helgi
- Líf

Wednesday, January 18, 2012

Sumarskap & útsölur

Við Díana sinntum nauðsynjastörfum í dag, mollið var tekið ! 
Elsku forever 21& væntanlegt sumar....











Og nýja kókoslínan frá Bath & Bodyworks er yndisauki ;

Aruba Coconut™ Shower Gel - Signature Collection - Bath & Body WorksAruba Coconut™ Triple Moisture Body Cream - Signature Collection - Bath & Body WorksAruba Coconut™ Fragrance Mist - Signature Collection - Bath & Body Works

XXX Líf

Monday, January 16, 2012

Vorveður

Veðrið hefur verið ansi gott hér síðustu daga og spáir fremur góðu áfram!
Langaði að deila með ykkur nokkrum myndum úr miðbænum okkar :)


Hér er hægt að gefa öndum brauð

Almenningsgarður


Mikið um tjarnir

Fiskar í tjörninni

Sólin falleg

Tekið af brú 

Sunday, January 15, 2012

Svona er staðan

Góðan og blessaðan kæru samlandar.

Hér er allt gott að frétta úr höfuðstöðvum Vatnsendavegarins. Á morgun er liðin vika síðan við skötuhjú lögðum leið okkar hingað eftir jólafríið. Hlutirnir eru að komast í fastar skorður og eins og maður getur fengið leið á rútínu þá er alltaf gott að komast aftur í hana.

Nú varðandi skólamálin þá gengu þau ekki alveg eins og ég hafði ætlað mér. Þegar við fórum héðan í byrjun desember var allt að verða klárt í skólanum úti fyrir mig, eina sem átti eftir að gera var að senda bankaplagg og þá yrði allt græjað. Fyrsta sem ég geri nánast eftir heimkomu er að senda þeim þetta blað með hraðpósti og það kemur út tveimur dögum síðar. Nema hvað að allt í einu sendir konan sem sá um mín mál mér póst þar sem hún segir að einkunnirnar mínar úr Fjölbrautaskólanum gangi ekki upp, hún heldur sem sagt að það séu háskólaeiningar. Hún segist þurfa afrit af stúdentsprófi sem er nákvæmlega það sem hún fékk. Ég sendi henni það og svo er eins og hún hverfi af jörðinni, grínlaust! Reyndum að hringja, hún var ekki við og hún svaraði engum tölvupóst. Síðan kom jólafríið og þegar skrifstofan opnaði aftur 3. janúar þá var orðið of seint fyrir skólann að senda mér I20 sem ég hefði þurft til að komast inn í landið. Frekar fúlt það!

En það þýðir ekki að gráta það, ég var svo heppin að komast inn í fjarnám í Bifröst og ég hef nóg að gera og sansast í því, mun meira en ég átti von á! Verkefni og fyrirlestrar svo að ég hef nóg að gera. Þá er allavega hægt að safna einingum til að færa yfir í skóla ef ég fer í skóla hérna úti í haust. Námið leggst fínt í mig, það kallast viðskiptafræði með áherslu á markaðssamskipti. Mjög spennandi! Líka því að margir mannauðstjórar hafa einmitt tekið viðskiptafræði í BS og svo mannauðstjórnunarmaster ofan á það.

En fyrstu dagarnir hafa sem sagt verið mjög fínir, við Díana mættum hressar í þreksalinn sem ég hef minnst á áður. Sameiginlega sem er nánast alltaf tómur, en í þetta sinn hittum við mann sem er að læra einkaþjálfun og ætlar að hafa okkur sem æfingu, alveg frítt sem er ekki verra! Það er ekkert að skemma fyrir að hann er mjög strangur við okkur svo það er ekkert kjaftæði :) 4 daga helgarfrí tók síðan við, Raggi er í fríi í skólanum alltaf á föstudögum og á morgun, mánudag, er King's day sem kallað er eftir Martin Luther King. Á föstudagskvöldið fengum við góða gesti í indverskt, við Raggi mölluðum réttina á fimmtudagskvöldið og létum standa í poka yfir nótt og síðan bakaði ég nanbrauð og gerði hrísgrjónasósu. Þetta tókst bara nokkuð vel verð ég að segja og eftir skemmtilegt kvöld tóku við nokkrir léttir snúningar og karokí.
Laugardagurinn fór í undirbúning og búningasans fyrir afmælið hans Esra sem var haldið um kvöldið. Þemað var Pimnp's & Hoes og það var líka mjög skemmtilegt kvöld.

Gestir í mat


                                                                  A pimp and a hoe
Mjög góð helgi að baki sem við enduðum á góðri nautasteik og fórum síðan á Sherlock Holmes í bíó með Díönu og Ragga.

Verið sæl að sinni
- Líf

Rölt um í fína veðrinu í dag