Það hefur ýmislegt gerst síðan síðast! Við fórum öll 6 saman í gær til Atlanta, það er stór borg í ca. 4 klukkustunda fjarlægð frá Huntsville. Við lögðum af stað beint eftir æfingu Ragganna og vorum lent um hádegisbil í borginni. Byrjuðum á að fara í Dýragarðinn eða Atlanta ZOO og þar sáum við ýmis skemmtileg dýr eins og ljón, górillur, pöndur, gíraffa, tígrisdýr og fleiri dúllur. Það er svo langt síðan ég hef farið í svona dýragarð og ég var búin að gleyma hvað það er skemmtilegt. Eftir það var tekin mollferð, H&M er í Atlanta og við gátum aldeilis eytt tímanum þar, alltaf jafn gaman að koma við í þeirri búð! Skil ekki afhverju hún er ekki í Huntsville, reyndar er hún ekki í öllu fylkinu Alabama, ég las reyndar kenningu um að það væri "of" heitt í því fylki að eigendur H&M vildu ekki opna búð þar. Sem að reyndar er hæpið þar sem þeir eru með búð í Florida. En það er önnur saga.
Flamingos |
Svo gaman að skoða dýrin ! |
Við fórum líka í risa FOREVER21 búð á tveimur hæðum, mjög fín búð og enduðum eins og oft áður á CheeseCake Factory. Við vorum að borða til að verða 11 um kvöldið og ákváðum að leggja í hann heim eftir matinn. Keyrðum alla leið til Birmingham en þar þurftum við svo að stoppa til að taka bensín, við völdum greinilega ekki réttu sjoppuna til þess! Ég ákvað að bíða, ég var nú ekki búin að bíða lengi í bílnum þegar ég læsti mig inni og þóttist vera í símanum. Mikið var ég smeyk, sömu sögu var að segja af Ragga, Þórði og Agnesi sem fóru inn. Klósettið var þakið grænum sveppum, afgreiðslumaðurinn var í glerbúri og hver einasti maður sem gekk inn í búðina var vopnaður og líklegur til vandræða. Þau voru nú ekki lengi að afgreiða sín mál inni í sjoppunni og við brunuðum svo bara í burtu og héldum okkar leið. Svolítið undarlegt að segja frá því, ég upplifði ýmsar aðstæður í Afríku sem voru erfiðar en mér fannst öryggi mínu aldrei vera ógnað, ef þið skiljið hvað ég á við. Þar var enginn vopnaður og allir vildu öllum vel. En svo getur vel verið að það hefði ekkert getað komið fyrir okkur í þessari sjoppu. En þetta var að mörgu leytinu ógnvekjandi enda ókunnar aðstæður.
Á snæðingi
Við rétt komumst á koddann eftir langa ferð og sváfum vel út í morgun. Dagurinn í dag er nokkurn veginn óráðinn, okkur langar að taka göngutúr en eigum eftir að staðsetja hann betur. Mömmusnúðar og súkkulaðikaka á leið í ofninn fyrir kaffitímann. Svo er bara að fá okkur góðan kvöldmat og kíkja jafnvel á skrallið. Talandi um skrall þá langar mig að henda knúskveðju á Akureyri þar sem stór hluti vinahópsins er að mála bæinn rauðann í þessum skrifuðu orðum í tilefni afmælis hjá Þórdísi! Efast ekki um að það verði skemmtilegt þegar þessar skutlur koma saman.
Njótið helgarinnar, það ætla ég að gera! Enda stutt í heimferð gestanna.
XXX
Líf
No comments:
Post a Comment