Tuesday, February 28, 2012

Erfiðir dagar......

"Skjótt skipast veður í lofti" heyrði ég einhvers staðar fyrir löngu.

Mér finnst það eiga frekar vel við núna. Það hafa verið erfiðir tímar hjá okkur hérna í Huntsville. Leikurinn á laugardaginn í Birmingham fór ekki alveg eins vel og vonast var til. Raggi meiddist fljótlega í byrjun leiksins í vinstra hnénu. Ég sá það á honum úr stúkunni að þetta var alvarlegt og sú er eiginlega rauninn. Við fórum á sjúkrahúsið seinnipartinn í gær og læknirinn sem skoðaði hann er nokkuð viss um að krossbandið sé slitið. Það er þá í annað sinn sem það kemur fyrir Ragga en þetta eru mjög erfið meiðsl fyrir knattspyrnumenn hvað varðar endurhæfingartíma og fleira. 

Á mánudaginn mun hann fara í segulómun á hnénu en læknirinn vill fá betri mynd af liðþófunum og fleiru. Hvort það sé jafnvel farið líka. Hver endanleg niðurstaða verður mun koma betur í ljós nokkrum dögum eftir myndatökuna.

Við höfum fengið góðan stuðning og hlýjar hugsanir frá fólkinu okkar heima & það er vissulega gott að eiga góða að á erfiðum tímum.

Margt sem þarf að skoða núna og endurhugsa en Raggi er sterkur og við verðum að vera jákvæð :)
Vildum allavega láta vita af stöðu mála.
Knús heim,
Líf.


Wednesday, February 22, 2012

2xF

Fimmtudagsfréttir frá Suðurríkjunum.
Það líður að helgi eins og svo oft áður. Raggi er búinn í skólanum um hádegi á fimmtudögum og í fríi á föstudögum svo það er ekkert hægt að kvarta yfir að vikan sé löng. Svo reyni ég alltaf að skipuleggja vikunna þannig að ég eigi helgina lausa sem að tekst nú yfirleitt hjá mér.
Vikan er búin að vera mjög fín bara, vikufríið sem ég blessaði svo fallega í færslunni hér á undan varð að engu, eða réttara sagt var misskilingur. Næsti áfangi er hafinn og komnir 6 nýjir fyrirlestrar og 1 nýtt verkefni svo nú er ekkert annað í stöðunni en að bretta upp ermarnar á ný og vera ekkert að væla yfr því neitt.

Á mánudagskvöldið komu allir Íslendingar Huntsville (að mér vitandi a.m.k) heim til okkar í kjúklingasúpu, bollur og spil. Það var mjög skemmtilegt kvöld og mikið hlegið. Spiluðum Ticket to Ride sem er svona lestarspil sem snýst um miklar pælingar og útsjónarsemi. Við skiptum í lið og það mátti nánast sjá rjúka úr hverjum haus, slík var einbeitningin. En það endaði þannig að Raggi og Esra báru sigur úr býtum og þeim leiddist það ekkert.

Einbeitning

Dagarnir hafa verið svipaðir, lærdómur og ræktin. Veðrið er allt að koma til, eða það er búið að vera frekar hlýtt og fínt og spáir svipuðu áfram og 21 gráðu og sól í dag. Erum farin að geta verið úti á peysunni svo að þetta styttist nú í pils og kjóla. Mér finnst það ekki leiðinlegt! Við erum búin að vera dugleg að brúka bókasafnið, það er opið til 12 á miðnætti á kvöldin og mjög gott andrúmsloft og þæginlegt að vera þar.

Pós eftir gott kvöld á bókasafninu

Skóla-Raggi að læra fyrir listasögupróf með "bros" á vör.

Nú á morgun eru 2 vikur í næstu gesti, ég míg smá í mig úr spenning :) Svo á laugardaginn munu strákarnir keppa sinn fyrsta æfingarleik. Sá leikur mun fara fram klukkan 2 á okkar tíma í Birminham. Við erum sirka einn og hálfan tíma þangað og munum við Díana ekkert láta okkur vanta þangað. Tökum smá road trip á þetta. Svo er stefnan að fara öll saman að borða og jafnvel kippa einu stykki Emil með og mögulega fleiri Íslendingum þaðan. Alltaf gaman að hitta kunnuleg andlit :)

Í dag, 23.febrúar, er Lóa litla mágkonan mín 12 ára gömul. Það er nú varla að ég geti sagt litla, hún stækkar og stækkar þessi skvísa :) Við Raggi sendum knús á hana og vonum að dagurinn verði sem allra bestur fyrir hana og Rokkstjörnupartýið um kvöldið sömuleiðis! Værum nú mikið til í að vera á Skaganum og njóta dagsins með henni en það styttist í að þau komi !! Það verður rosalega gaman :-)

Afmælis-skvísan :-)

Ég ætla nú ekkert að hafa þetta lengra og segi bara góða helgi til allra heima :*
XXX
Líf

Monday, February 20, 2012

Prófa"lok", bolludagur & spilakvöld

Jæja þá er prófinu mínu lokið á þessum bjarta og fallega mánudegi hér í Huntsville.
Ég fékk að taka prófið mitt í rekstrarhagfræði í skólanum hans Ragga en þar var kona sem sat yfir mér, prófið gekk bara mjög vel, eiginlega betur en ég þorði að vona en ég var nú líka búin að læra mikið fyrir það.
Helgin fór algjörlega í lærdóm, skruppum reyndar í bíó á föstudaginn og sáum myndina Safe House! Mjög góð mynd með svölum leikurum.
Á laugardaginn prófuðum við að elda kjúklinga risotto! Uppskriftina fengum við hjá Felix nokkrum hér í bæ, ég vissi ekki einu sinni hvað þetta var fyrr en hann sagði okkur frá þessu en mikið sem þetta er gott og líka einfalt. Þá er sem sagt bara laukur smjörsteiktur, því næst kjúklingurinn steikur og öllu blandað saman (gott að nota Wook pönnu) og svo eru hrísgjrónin elduð á pönnu, salt og pipar og smjörsteiktir sveppir líka. Það er svona skemmtilegur plokkfiskfýlingur í þessu ef þið vitið hvað ég er að fara. Líklega útaf smjörsteikta lauknum. En allavega þá var þetta mjög gott, borið fram með fersku salati. Líka gaman að googla fleiri risotto rétti, þvílíkt mikið til af þessu.

Risotto 


Kjúllasúpa í vinnslu
Ég var núna í þessum skrifuðu orðum að koma frá Díönu, við tókum okkur til og útbjóum bollur svona í tilefni af bolludeginum! Maður verður nú að halda í íslensku siðina líka og þær tókust nú bara mjög vel verð ég að segja. Allir Íslendingarnir í Huntsville munu koma saman í kvöld hérna heima hjá okkur og spila. Við skelltum í kjúklingasúpu og svo verða bollur í eftirrétt. Hlakka mikið til að fá þau :)

Ljómandi :-)

Ég er komin í vikufrí núna, næsti áfangi byrjar á mánudaginn en það mun vera þjóðhagfræði. Brjálað stuð en það verður agalega gott að sofa út í fyrramálið og lesa (annað en skólabækur). Annars er ég alltaf svo skemmtilega skipulögð þegar ég er í prófum. Málið er að mér tekst að finna upp hina ótrúlegustu hluti sem vantar endilega að gera akkurat þegar ég er að læra. Ég ákvað að leyfa mér ekki að komast upp með að rjúka í þá heldur gerði ég lista. Í hvert skipti sem mér datt eitthvað í hug þá hélt ég áfram að læra og skrifaði atriðið á lista. Ég skal deila með ykkur brot af listanum (vona að það séu fleiri þarna úti svona eins og ég)

- Þrífa bílinn að innan & utan
- Taka allt út úr fataherberginu, endurraða og skipuleggja upp á nýtt (ég er ekki í lagi, ég veit)
- Taka allt úr eldhússkápununm og þrífa þá
- Þrífa og smúla svalirnar

Já þetta er aðeins lítill hluti af listanum. Ég hugsaði með mér, nú geri ég þessi atriði eftir prófið og sé hversu heimskuleg þau hljóma. En ég ætla mér nú að standa við það, hugsa mig kannski tvisvar um áður en ég fer að útbúa langa lista í næsta prófalestri! Kemur í ljós eftir 6 vikur.

Konudagurinn í gær, þarf ekki mikið til að gleðja lítið hjarta

Eigið góða vikuna, knús á klakann
- Líf

Wednesday, February 15, 2012

Gestirnir farnir, Valentínusarnotalegheit & lokapróf framundan

Góðan daginn gott fólk,
nú er orðið nokkuð tómlegt í kotinu, en Agnes og Þórður fóru heim á mánudagsmorguninn. Það var alveg yndislegt að hafa þau hjá okkur og ég væri nú alveg til í að fá þau aftur á meðan á Bandaríkjadvöl okkar stendur. Það er svo hrikalega gaman að hafa gesti ! Síðasta helgin var bara notaleg, elduðum okkur pizzu öll saman á laugardaginn og kláruðum svo smá stússerí á sunnudaginn og enduðum á nautasteik með öllu tilheyrandi. Bara æðislegt. Nú er bara að setja allt í gang í lærdómnum, fyrsta lokaprófið mitt er næsta mánudag. Það er í rekstrarhagfræði, eins og ég hef minnst á tek ég einn áfanga í einu og próf í honum og byrja svo í næsta. Ég er búin að vera nokkuð dugleg að læra svo að ég er ekkert brjálað stressuð fyrir prófinu en það þýðir samt ekki að ég ætli að detta í eitthvað kæruleysi. Hef haldið mig þessa vikuna á bókasafninu í skólanum hjá Ragga þar sem ég hef góðan frið og umhverfi. Ég er einmitt á leiðinni þangað núna ;)

Valentínusardagurinn var haldin í gær, þvílíkt og annað eins hérna úti. Við fréttum af því að nánast hver veitingarstaður væri fullbókaður, Valentínusardeildin í stórverslununum var gjörsamlega stöppuð. Það kom okkur svolítið á óvart að þetta virðist vera hátíð fyrir alla fjölskylduna. Þá meina ég að það voru til kort stíluð á ömmu, afa, systkini, foreldra, vini og síðast en ekki síst elskhuga. Fésbókin var uppfull af krúttilegheitum í gær en líka fólk sem hafi aðrar skoðanir á deginum eins og að hann væri tilgangslaus, ekki íslenskur og allavega. Mín skoðun ; íslenskur eða erlendur, tilgangslaus eða mikilvægur ? Krúttlegur dagur með fallega meiningu :)

R-in 2 (RaggiRómó)

Það getur komið sér mjög vel að eiga arin

Indverskt að borða, uppáhald!

Svo styttist nú í næstu gesti en það munu vera móðir, Valdi, Snorri og Viggligg sem mæta á svæðið 9. mars og ég neita því ekki að ég er orðin mjög spennt fyrir því. Er alltaf að hugsa um hluti sem væri gaman að gera með þeim, maður lærir af því að hafa gesti hvað er skemmtilegt að gera og svo framvegis. Svo þegar þau fara heim þá er það Puerto Rico daginn eftir svo það er margt skemmtilegt framundan!

Æj það styttist í systraknús :*

Lokaprófið mitt er á mánudaginn, ég mun taka það í skólanum hans Ragga þar sem setið verður yfir mér. Bara  eintómt stuð! Svo byrjar nýr áfangi á þriðjudaginn sem er þjóðhagfræði. Mér líkar vel við þetta nám það sem komið er, verður líka bara spennandi að byrja nýjan áfanga. Raggi var að klára sín fyrri miðannarpróf og honum gekk ljómandi vel eins og honum einum er lagið!

Knús yfir hafið
- Líf

Saturday, February 11, 2012

Dýragarður, H&M & skrautleg sjoppuferð

Góðan og blessaðan laugardag.
Það hefur ýmislegt gerst síðan síðast! Við fórum öll 6 saman í gær til Atlanta, það er stór borg í ca. 4 klukkustunda fjarlægð frá Huntsville. Við lögðum af stað beint eftir æfingu Ragganna og vorum lent um hádegisbil í borginni. Byrjuðum á að fara í Dýragarðinn eða Atlanta ZOO og þar sáum við ýmis skemmtileg dýr eins og ljón, górillur, pöndur, gíraffa, tígrisdýr og fleiri dúllur. Það er svo langt síðan ég hef farið í svona dýragarð og ég var búin að gleyma hvað það er skemmtilegt. Eftir það var tekin mollferð, H&M er í Atlanta og við gátum aldeilis eytt tímanum þar, alltaf jafn gaman að koma við í þeirri búð! Skil ekki afhverju hún er ekki í Huntsville, reyndar er hún ekki í öllu fylkinu Alabama, ég las reyndar kenningu um að það væri "of" heitt í því fylki að eigendur H&M vildu ekki opna búð þar. Sem að reyndar er hæpið þar sem þeir eru með búð í Florida. En það er önnur saga.


Flamingos


Svo gaman að skoða dýrin !

Við fórum líka í risa FOREVER21 búð á tveimur hæðum, mjög fín búð og enduðum eins og oft áður á CheeseCake Factory. Við vorum að borða til að verða 11 um kvöldið og ákváðum að leggja í hann heim eftir matinn. Keyrðum alla leið til Birmingham en þar þurftum við svo að stoppa til að taka bensín, við völdum greinilega ekki réttu sjoppuna til þess! Ég ákvað að bíða, ég var nú ekki búin að bíða lengi í bílnum þegar ég læsti mig inni og þóttist vera í símanum. Mikið var ég smeyk, sömu sögu var að segja af Ragga, Þórði og Agnesi sem fóru inn. Klósettið var þakið grænum sveppum, afgreiðslumaðurinn var í glerbúri og hver einasti maður sem gekk inn í búðina var vopnaður og líklegur til vandræða. Þau voru nú ekki lengi að afgreiða sín mál   inni í sjoppunni og við brunuðum svo bara í burtu og héldum okkar leið. Svolítið undarlegt að segja frá því, ég upplifði ýmsar aðstæður í Afríku sem voru erfiðar en mér fannst öryggi mínu aldrei vera ógnað, ef þið skiljið hvað ég á við. Þar var enginn vopnaður og allir vildu öllum vel. En svo getur vel verið að það hefði ekkert getað komið fyrir okkur í þessari sjoppu. En þetta var að mörgu leytinu ógnvekjandi enda ókunnar aðstæður.



                                                                          Á snæðingi

Við rétt komumst á koddann eftir langa ferð og sváfum vel út í morgun. Dagurinn í dag er nokkurn veginn óráðinn, okkur langar að taka göngutúr en eigum eftir að staðsetja hann betur. Mömmusnúðar og súkkulaðikaka á leið í ofninn fyrir kaffitímann. Svo er bara að fá okkur góðan kvöldmat og kíkja jafnvel á skrallið. Talandi um skrall þá langar mig að henda knúskveðju á Akureyri þar sem stór hluti vinahópsins er að mála bæinn rauðann í þessum skrifuðu orðum í tilefni afmælis hjá Þórdísi! Efast ekki um að það verði skemmtilegt þegar þessar skutlur koma saman.

Njótið helgarinnar, það ætla ég að gera! Enda stutt í heimferð gestanna.
XXX
Líf


Monday, February 6, 2012

Gestir & Gaman

Sælt veri fólkið,
Allt gott að frétta héðan að sunnan. Agnes og Þórður komu til okkar á föstudaginn um hádegisbil, Díana útbjó hádegisverð og við tókum þau rúnt um svæðið. Heimatilbúin pizza var síðan búin til um kvöldið og rólegheit enda flugþreyta í gestununm.
Daginn eftir tókum við daginn nokkuð snemma með því að fara til Nashville, en það er borg hérna tæpum tveimur klukkustundum frá okkur. Það er stærri borg en okkar og gaman að skoða, komumst í Urban Outfitters sem er mjög flott fatabúð, sérstaklega fyrir karlpeninginn. Borðuðum auðvitað kvöldmatinn á einum besta staðnum Cheese Cake Factory en þangað er alltaf gaman að fara, sérstaklega með gesti enda geta allir fundið sér eitthvað við sitt hæfi á þeim staðnum. Verst er að staðurinn dregur nafn sitt af ostakökununum frægu og maður er yfirleitt of saddur eftir réttinn til að höndla stærðar ostakökusneið í desert. En það er hægt að taka þeir með og ein sneið er yfirdrifin nóg fyrir parið.

Við á Cheese Cake Factory

Sunnudagurinn gekk í garð og strákarnir fóru að veiða. Já, hvað er meira suðurríkja-Alabamalegt en að fara að skjóta íkorna. Þeir gerðu þetta allavega strákarnir á meðan við Díana fórum með Agnesi og þræddum stærsta mollið í bænum! Það var ekki leiðinlegt að geta sýnt Agnesi búðirnar og leyft henni aðeins að missa sig, svo verður maður alltaf að missa sig örlítið líka. En þegar við vorum búin að versla þá fórum við heim og þá voru strákarnir búnir að panta vængi og franskar til að narta í yfir SuperBowl. SuperBowl er úrslitaleikurinn  í Amerískum fótbolta og ég veit ekki meir. Það er að vísu mikið sjów í hálfleik þar sem Madonna sjálf tróð upp ásamt fleiri listamönnum. Felix og Esra komu líka og við horfðum á þetta og skemmtum okkur vel, einna helst yfir auglýsingunum sem voru mjög fyndnar.


Í dag kíktum við í Target, alltaf gaman að fara þangað. Þar er svona allt mögulegt samansafnað í eina búð sem er sennilega álíka stór og 1/2 Kringlan. Ég náði mér í þessa fínu skógrind fyrir safnið ;-) djók, samt smá ekki. Nú er planið að elda okkur heimatilbúna hamborgara og jafnvel skreppa í bíó í vikunni að sjá myndina Man on a ledge sem strákarnir eru svo spenntir fyrir.


Það er allavega hrikalega gaman hjá okkur að hafa gesti á dýnu og við ætlum að njóta þess að gera eitthvað skemmtilegt í vikunni. Atlanta er jafnvel stefnan á föstudaginn !! Þar er H&M og dýragaður og margt fleira skemmtilegt.

Góða viku öllsömul,
Líf

Thursday, February 2, 2012

Fimmtudags-fréttir

Sólin í dag
Jæja, þá er bara alveg að koma að gestunum okkar og við erum orðin rosalega spennt hérna á Vatnshlíðarveginum!

Vikan hefur farið í undirbúning, eða meira svona að ná að læra fyrir 2 vikur. Það hefur gengið nokkuð vel, eitt verkefnið var að koma inn núna klukkan 6 hjá okkur eða miðnætti heima og nú er að skella í að klára það. Fór að læra uppí skóla hjá Ragga í dag á bókasafninu og það gekk strax mun betur að einbeita sér, ekkert sem truflar og maður _verður_ allt í einu að gera. Eins og að taka til í skápum og flokka föt og svona álíka eins og kemur oftar en ekki fyrir mig.

Við Díana skruppum aðeins í mollið í gær, aðeins að hita það upp fyrir Agnesi og við leyfðum okkur eina skó. Það er ekkert leiðinlegt að versla sér skó , það er eiginlega bara alls ekki leiðinlegt. En maður verður nú samt að passa sig og spara fyrir Puerto Rico ferðina.

Í dag var rosalega gott veður, loksins, eða þá meina ég hlýtt. Var alveg 17 stiga hiti, sól og logn sem að er auðvitað bara mjög næs. Það var reyndar nóg að gera í dag, borga leigu, bankast og vesenast aðeins í bílamálum. Skruppum líka aðeins í búð eða réttara sagt markað sem selur Evrópskar vörur, þar fundum við Harobo hlaup, knorr vörur, PrincePolo og fleira sem verður að teljast sjaldséð sjón í stóru búðunum hér. Jeremy nágranni kom yfir í Tacco og við sátum heillengi á spjallinu enda langt síðan við hittum hann síðast.



En bara lauflétt og laggott núna, ætla að klára síðasta verkefnið og njóta þess svo að fá gestina á morgun :-)
- Líf