Ef að einhverjum Atlantabúa myndi detta í hug að kjósa heppnustu einstaklinga borgarinnar þá yrðum við líklegast ekki fyrir valinu.
Þessi ferð hefur eiginlega verið svo einstaklega óheppileg, að ég hef ákveðið að slá öllu upp í grín og vona að við sitjum allavega eftir með aðeins meira en bara sárt enni, það er að segja góða ferðasögu.
En áður en ég segi frá henni þá verð ég eiginlega að byrja á byrjunni. Eða þar sem óheppnin náði okkur. Það var sem sagt á leið heim úr verslunarmiðstöðinni í Huntsville á fimmtudagskvöldið, þegar við settumst upp í bílinn og sáum að himininn var allur að lýsast upp öðru hverju. Ég hafði tekið á mig að keyra og við vorum fjögur saman í bílnum en Raggi og Snorri urðu eftir heima. Fljótlega áttuðum við okkur á því að þarna voru þrumur og eldingar að verki. Þvílíkt og annað eins hef ég aldrei séð, ég ákvað að drífa mig með þau heim, leið sem venjulega tekur um 15 mínútur. Ég var ekki fyrr búin að láta það út úr mér hvað við værum þó heppin að sleppa við rigninguna þegar hið sama gerðist.. Þessi rigning var aftur á móti engu lík, ég var komin á hraðbrautina og droparnir skullu á bílinn líkt og haglél, slíkur var krafturinn. Mér fór að hætta að lítast á blikuna þegar við höfum náð að keyra í smá stund. Þá er löggann um allt að aðstoða fólk í vanda og hver og einasti bíll hafði flúið undir brýr eða annað til að hreinlega skýla bílnum. Þetta er sennilega erfiðasta reynslan mín sem ökumaður en við lentum nú öll einhvern veginn heil á höldnu eftir langa ferð.
Þá er það Atlantaferðin sem að hófst eldsnemma á föstudagsmorguninn þegar Fordinn var nokkurn veginn alveg fylltur. Á leiðinni sátu sex farþegar með gleði í hjarta og gjafir í hönd. Við vorum komin til Birmingham þegar bíllinn fór að haga sér vægast sagt undarlega, sem er reyndar honum einum lagið. Hann fór að hiksta og allt í einu gátum við ekki stjórnað hraðanum, og vorum föst á sirka 40 kílómetrum á klukkustund á miðri fjögurra akgreina hraðbraut. Nú jæja við stoppuðum á mesta Suðurríkjaverkstæði sem fyrir finnst, á milli þess sem eigandinn hrækti tóbaki í tóma gosflösku, tyggði strá og reykti vindil þá boraði hann göt á pústurörið og tilkynnti okkur með sínum fagra hreim að hann fyndi ekkert að bílnum.
 |
Stoppuðum í veiðibúð á leiðinni |
 |
Tekið inni í búðinni, mögulega sú stæsta sem ég hef séð! |
Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem bíllinn er með stæla og yfirleitt dugir nú að hvíla hann aðeins, það var nú einmitt rauninn í þetta sinn. Eftir smá hvíld var bíllinn aftur orðinn hinn mesti máti, og eina í stöðunni að halda áfram. Í ljósi þess að eigandinn gerði öll möguleg próf sem að bíllinn stóðst með mikilli prýði. Við höfum tvisvar látið athuga með þetta, í annað sinn hjá Ford umboðinu en það finnur aldrei neinn neitt vandamál. Við mælum allavega ekki með Ford Taurus 1999 árgerð!!
 |
Þessi kippti sér ekki upp við nein bílavandamál |
Bíllinn skrölti það sem eftir var af leið okkar til Atlanta og við vorum komin þangað um 4 leytið, en það bættist við klukkutími, okkur í óhag. Farið var á NBA leik og einnig í verslunarferð sem mætti jafnvel kalla verslunarferð ársins, bara hugmynd þó!
Raggi skutlaði okkur mömmu og Diddu Leu í verlsunarmiðstöðina sem er aðeins út fyrir miðborgina. Þar gátum við nú skemmt okkur vel, H&M, Macy's og fleiri búðir voru góðar að vanda. Heimleiðin var annað mál, við ákváðum að taka okkur leigubíl. Eins og hann var nú almennilegur maðurinn sem að pantaði fyrir okkur leigubílinn þá skyldi hann álíka mikið í ensku og linghænuegg.
Á svæðið mætti svört limmósína með samlituðum rúðum. Við vorum nú ekki alveg að átta okkur en litli maðurinnn sannfærði okkur um að þetta væri bíllinn svo við létum vaða. Maðurinn sem þar tók á móti okkur var líklegast ekki alveg með öllu mjalla, svo vægt sé tekið til orða. Við hefðum líklega getað prísað okkur sælar með litla manninn þegar hinn hóf sitt mál. Hann byrjaði á að spyrja okkur hvað við værum að gera og við reyndum eftir okkar bestu getu að útskýra mál okkar. Yfirleitt eru það við sem að erfitt er að skilja hérna úti en nú snérust hlutverkin við. Þegar við erum komin út á aðalhraðbrautina er allt stopp. Hver einasti bíll á hverri einustu akgrein var fastur í einni mestu umferðarteppu sem að ég hef orðið vitni af. Ástæðan var einföld, eða það vildu Kanarnir meina. Obama nokkur var á svæðinu og af öryggisástæðum var ekki annað í stöðinni en að loka öllu á meðan var að ferja hann á milli staða. Við keyrðum framhjá hótelinu hans og þvílíkt og annað eins umfang, man ekki eftir að hafa séð slíkt.
Ég var næstum búin að gleyma að lýsa leigubílnum betur, hann var ekki merktur TAXI, hann var í útliti eins og limmósína og það var ekki að sjá innan í honum að það væri gjaldmælir í gangi. Á milli blótkasta mannsins í framsætinu hóf hann að lemja þéttings fast á bílhurðina hjá sér. Við vitum ekki alveg hvað við eigum að gera eða segja en við reynum að halda okkur rólegum. Ég reyndi að slá á létta strengi með því að segja að vonandi hefði þessi Obama-heimsókn ekki hreinlega þveröfug áhrif, að fólk myndi ekki kjósa hann sem að myndi lenda í umferðaröngþveitinu. Það stóð ekki á okkar manni, það myndi sko enginn heilvita maður fara að kjósa hann hvort sem er, né annan demókratafjanda. Svo það fór fyrir lítið að ætla að þynna andrúmsloftið, hann létt nokkur vel valin högg dynja á hurðinni sinni og blótaði öllu mögulegu, meðal annars líkti hann ástandinu við stríðið í Írak. Allt í einu gerðist svolítið undarlegt, félaginn tekur skyndiákvörðun, flautar á allt og alla og bakkar þangað til að hann kemst út úr mestu þrengslunum. Ég geri aðra tilraun til að létta andrúmsloftið með því að spyrja hann hvort að leigubílar í Atlanta væru venjulega svartir eins og þessi. Svarið lét ekki standa á sér; Í fyrsta lagi þá væri þetta limmósínuþjónusta og í öðru lagi þá væri þetta hans eigin bíll, á meðan hann hreytti þessu í okkur í afturstætið varð síminn hans augljóslega batterýslaus og þar með voru farin öll hans tengsl við umheiminn. Nú voru góð ráð dýr, fúllyndi félaginn í framsætinu fékk þá hugmynd að ég skyldi hringja í 511 sem að er símanúmer til að fá upplýsingar og færð á vegum. Svörin voru lítil sem enginn og hann bauðst til að tala fyrir mig sem að ég leyfði honum., Með glænýjan Iphone símann minn í hendi reyndi hann eftir bestu getu að fá einhver svör frá færðarþjónustunni en það virtist lítið ganga. Síminn minn í framsætinu tilkynnir mér með vægu bíbhljóði að inneignin sé búin. Þá lifnar yfir okkar manni, hann segist ætla að fara með okkur aftur í verslunarmiðstöðina. Hann segir að við getum líklegast fundið okkur hótel þar, því það sé enginn möguleiki að koma okkur á hótelið, þar sem eina leiðin þangað sé stífluð. Á leiðinni sjáum við lögreglumenn út um allt S.WA.T. meðlimi og ég lýg því ekki að ég sá glitta í agent Gideon þegar lætin voru að ná hámarki.
Ég átti ennþá næga inneign til að láta Ragga og Valda vita að málin væru ekki í sem bestri stöðu og þeir ættu að hafa áhyggjur ef að við færum nú ekki að skila okkur heim. Vigný Lea kippir sér ekki mikið upp við aðstæðurnar heldur syngur Bí Bí og blaka hástöfum alla leiðinni, loks fór hún að þreytast og sofnar þegar við höfum eitt um það bil klukkutíma í bílnum. Þá biður mamma félagann vinsamlega að skrúfa upp gluggann, það sé farið að kólna og sú stutta sé sofnuð. Þá kemur það upp úr krafsinu að glugginn er fastur opinn, og það sé ástæða þess að hann hafi eytt öllum sínum kröftum í barsmíðar við hurðina. Einnig kemur í ljós (sem að okkur finnst reyndar ennþá mjög undarlegt) að bílstjórinn var bara að grínast með að ætla að láta okkur gista í verslunarmiðstöðinni og sé í raun að reyna að koma okkur heim eftir allt saman. Sem hann gerir á endanum eftir töluvert langa bílferð.......
Laugardagurinn gengur í garð og sólin skýn svo bjart að sjálfur heilagur Patrekur hefði glott út í annað hefði hann verið á svæðinu. En það var hann ekki enda hefði bærinn þá líklega ekki verið á hvolfi sökum "Saint Patrick's day. Umferðin var álíka brjáluð en hótelið okkar er staðsett í miðbænum. Dýragarðurinn var heimsóttur og gekk sú ferð nokkuð vel, ótrúlegt en satt. Eftir það snæddum við á Cheese Cake Factory og svo var það aðalmálið. Six Flags, en það er risastór skemmtigarður, einn sá stærsti hér í Ameríkunni.
Við vorum komin þangað um miðjan dag og það var rússibani sem varð fyrir valinu sem fyrsta tæki dagsins. Eftir klukkutíma röð komst í ljós að um bilun væri að ræða, öryggisstarfsmenn mættu á svæðið og allt var tekið í gegn. Eftir allt saman þurfti rússibaninn að fara tómur sirka 8 ferðir en það var eflaust gert af öryggisástæðum. Við komumst loks í tækið eftir langa bið og þetta voru nú skemmtilegar 40 sekúntur en mögulega ekki biðarinnar virði. Restin af heimsókninni í garðinn gekk þó prýðisvel og við Raggi og Snorri fórum í hvern rússíbanann á fætur öðrum og skemmtum okkur konunglega. Mamma og Valdi voru með Vignýju Leu í kerrunni en kíktu þó með í tæki og Valdi vann meðal annars þennan fína bangsa.
 |
Vigný Lea í skýjunum yfir sínu tivolí tæki & nýja bangsann |
Við þurftum svo að kíkja í H&M í miðbænum um kvöldið til að sinna síðustu erindum gestanna. Það tókst nú ekki betur til en svo að það tók okkur heila eilífð að finna stæði og þegar við vorum loks komin aftur í bílastæðakjallarann eftir verslunarferðina þá virkaði hvorki að nota kreditkort né að fá pening til baka. En allt reddaðist þetta þó.
Þetta hefur verið mjög skrautleg ferð, ég hugsa að við látum okkur nægja að eyða morgninum á hótelinu okkar á morgun svo að við lendum ekki fleiri óhöppum. En það hefur sannarlega verið mikið hlegið og veðrið hefur verið ótrúlegt. Svo það er ekki allt neikvætt við þetta allt saman.
Svo á ég líka afmælisbróður sem er 18 ára í dag, til hamingju með daginn Snorri minn og það hefur verið yndislegt að geta notið deginum með þér! :)
 |
***Flottur*** |
Gestirnir eiga flug á morgun klukkan 14:00 þar sem þau fara héðan frá Atlanta til Boston og svo þaðan til Íslands. Ferðin hefur verið frábær og við þökkum þeim fyrir vel heppnaða samveru og góða daga.
Íslendingarnir frá Huntsville munu lenda hér um hádegisbil og koma til okkar á hótelið og við munum eyða degi saman hér í Atlanta og fljúga síðan þaðan til Miami og svo Puerto Rico á mánudagsmorgun. En það mun eflaust verða efni í fleiri bloggfærslur.
Þangað til næst,
- Líf
Ps. Leyfi nokkrum myndum úr ferðinni að fljóta með til gamans :-)
 |
NBA miðarnir ! |
 |
Verið að velta fyrir sér maðseðlinum á Cheese Cake Factory |
 |
Klárar í tívolíferð |
 |
Mjög eðlilegir að vanda |
 |
Úti að borða eitt kvöldið |
 |
Úti-mollið í Huntsville, kallast BrigdeStreet |
 |
ATLANTA |
 |
Eftir matinn
|