Monday, January 7, 2013

Lesefni jólanna

Eitt það allra mest kósý við jólatímann er þegar maður er komin í náttfötin og leggst uppí með eina góða bók og hefur lestrastund. Þetta einskorðast alls ekki við kvöldin enda getur oft verið erfitt að hætta þegar maður er loksins byrjaður, ég tala nú ekki um spennubækurnar.
Ég fékk reyndar bara eina bók í jólagjöf þetta árið, hún ber nafnið "Fegraðu líf þitt" eftir Victoriu Morgan og er algjör skyldueign þori ég nánast að fullyrða! Þetta er ekki svona bók sem maður hamast í gegnum í von um uppljóstrun í endann heldur eru þetta lífsviðmið sem er hollt að fletta í endrum og eins. Bókin var auðvitað frá elskulegri móður minni.



"Í bókinni er að finna leiðbeiningar um hvernig hægt er að fá það besta út úr lífinu þrátt fyrir annríki nútímans. Hún er sérstaklega skrifuð fyrir konur og í henni eru sjötíu kaflar sem hver og einn afhjúpar leyndarmál og leiðbeiningar til að finna hina vandfundnu leið til fullnægjandi lífs."

En fjölskyldumeðlimirnir fengu fleiri bækur svo það var ekkert annað í stöðunni en að hefja lesturinn.


Fyrsta bókin sem að ég lagðist yfir var Kuldi eftir Yrsu Sigurðardóttir. Ég heillaðist af Yrsu sem höfundi þegar hún gaf út bókina "Ég man þig" fyrir um tveimur árum síðar. Ég viðurkenni alveg að ég er alls ekki mikið fyrir það yfirnáttúrulega í kvikmyndum sem og bókum en það var eitthvað við skipulagðan ritstíl og spennandi frásögn sem að greip mig alveg.
Í fyrra las ég svo Brakið en ég var ekki alveg nógu ánægð með þá bók, fannst eitthvað vanta og lausnin á fléttunni í endanum fannst mér af ódýrari gerðinni. En það var ekki þar sem sagt að ég var ekki lengi að rífa plastið af Kulda og hefja lestur. Þegar ég var búin með um 1/4 af bókinni þá leit ég upp og tilkynnti heimilisfólkinu að hér væri á ferðinni fyrirsjáanleg saga og ég væri þegar búin að spá fyrir um sögulok. En þar skjátlaðist mér aldeilid, þegar ég var um hálfnuð var enginn leið að leggja blessuðu bókina frá mér og hefði verið líklegra að ég hefði verið tilbúinn að skoða bleyjur en að taka pásu af lestrinum. Svo heilt yfir var ég mjög sátt með Kulda og mæli með henni!


Næsta bók á dagskrá var Reykjavíkurnætur eftir Arnald Indriðason. Ég veit ekki hvort það verða jól ef að sá höfundur tæki uppá að gefa ekki út sína árlegu jólabók. Ég var ekki nema 1.35 sentimetrar á hæð þegar ég uppgötvaði Arnald og las bækurnar hans eða réttara sagt kiljur eins og enginn væri morgundagurinn. Ég hef að sjálfsögðu haldið þessari hefð áfram enda kann hann sitt fag. Ég pissa aldrei neitt í mig eða sef ekki fyrir spenning meðan á lestri stendur en það er ákveðin klassi og fagmennska sem gerir það að verkum að lesturinn verður skemmtilegri fyrir vikið. Ég hef líka gaman að því hvernig hann fléttar saman gamla tíma með lýsingum sem gera það að verkum að maður virkilega spáir í því hvort hann hafi verið uppi á þessum tíma. Ég hef líka svolítið gert af því í nördalegum hugarheimi að leita á vefnum af myndum og jafnvel gengið svo langt að keyra hér í Reykjavík eftir lýsingum hans úr bókinni og með undraverðum árangri. Skrif hans hafa þau áhrif að mér finnst ég vera stödd í bókinni á því tímaskeiði og að ég get jafnvel séð hlutina fyrir mér (og ég verð seint þekkt fyrir ljósmyndaminni). En Reykjavíkurnætur er ekta Arnaldarbók, góð afþreyjing, raunsæ, vel skrifuð en skilur kannski lítið eftir sig.


Þriðja og síðasta bókin sem ég tók að mér í þessari lestrartörn var Húsið eftir Stefán Mána. Ég hef aldrei lesið staf eftir hann svo ég vissi ekki alveg við hverju ég var að búast og það var ekkert að hjálpa til að bókin var jafnlöng og hinar tvær til samans og nánast erfitt að halda á við lestur, sér í lagi í kojunni. Eftir um það bil 60 blaðsíður var ég við það að gefast upp, nýjar og nýjar persónur voru kynntar til leiks með tilheyrandi forsögu og nákvæmum lýsingum. Það var orðið virkilega erftt að sjá fyrir sér tengingu og maður var strax farin að gleyma mikilvægum nöfnum persónanna í bókinni. En ég gafst ekki upp og sem betur fer! Síðast þegar ég fékk hroll niður eftir bakinu við lestur þá var það í næstsíðasta kaflanum í bókinni Ég man þig eftir Yrsu. Ég átti nú ekki von á að þurfa að þola þennan blessaða hroll í gegnum stóran hluta lestursins og ég þurfti nánast fylgd um húsið eftir miðnætti. Söguþráðurinn fléttast svo flott saman og myndar magnþrunga atburðarrás sem vekur upp allan tilfinningaskalann.
Ég vil samt ítreka með þessa bók að ég byrjaði með tómann huga og núll prósent væntingar og ég veit að það spilar eflaust stóra rullu í aðdán minni. Ég frétti seinna meir að Stefán Máni skrifaði Svartur á leik og að það standi jafnvel til að koma Húsinu í kvikmyndaform. Ég veit allaveg að þar verð ég mætt fyrst manna með nachosskál í annarri og pappírsþurrkur í hinni, það er að segja ef hún verður jafn vel heppnuð og bókin.

Ég veit ekki hvernig þessi færsla varð að einhverri bókagagnrýni en stundum þegar maður byrjar að skrifa er enginn leið að hætta. Þetta eru þó aðeins mínar skoðanir og þurfa ekki að endurspegla mat þjóðarinnar, ef ég leyfi mér að vera stórorð. Ég mæli með að hafa eina bók á náttborðinu með skólabókunum á þessari önn. Ekki bara hefur það róandi áhrif á mann að lesa heldur er lestur þroskandi og gefandi.
Takk í bili
- Líf


x

No comments:

Post a Comment