Monday, November 28, 2011

2500 kílómetrar, yndislegir gestgjafar & 1 og hálf í heimkomu!

Sælt veri fólkið
Ýmislegt búið að drífa á daga okkar hér úti síðan síðast. Tókum þessa snilldar ákvörðun að fara til Díönu og Ragga til Richmond í Þakkagjörðarvikunni, þau búa í Richmond sem er sirka einum og hálfum tíma frá Washington DC. Keyrðum af stað eftir tíma hjá Ragga á þriðjudaginn og keyrðum í myrkrinu.... Ferðin tók sirka 10 tíma enda ekki margir á ferð svona seint. Vorum lent um 5 leytið um morguninn hjá þeim skötuhjúum en gleymdum að reikna með tímamismun svo við vorum komin um 6 leytið hjá þeim. Lögðum okkur svo bara og tókum skoðunarferð um svæðið. Mjög fínt og við kíktum aðeins í mollið og Cheese cake Factory og gerðum all svakalegt plan fyrir Black Friday.


Á sjálfan þakkagjörðardaginn elduðum við okkur Kalkúnabringur, sveppasósu, sætukartöflugratín og eplasalat! Það var virkilega vel heppnað hjá okkur þó ég segi sjálf frá og svo heimatilbúin Rolosósa og ís í eftirrétt. Svo var aðeins fengið sér í glas og mýkt strákana upp fyrir verslunarmissjónið sem tók við um tíu leytið....Það var _bilun_ !! Wallmart hóf leikinn klukkan 10:00 þar sem við gátum ekki einu sinni fengið kerru og allt var stappað af fólki! Okkur leið hálf illa þarna en náðum þó að versla okkur aðeins í búið og strákarnir Playstation3 og Fifa12, þeir voru voða ánægðir þessar elskur og hefðu alveg getað hætt þarna.


Tókum Urban Outfitters, Target, H&M, Bath and Bodyworks og ég kláraði nú bara nánast allar jólagjafir. Mjög sátt með þessi kaup en daginn eftir fór í algjöra afslöppun. Strákarnir gerðust Facebook sjúkir og við vorum bara að dúlla okkur, fá okkur osta&vín og spjalla, bara yndislegt!
Heimferðin gekk aðeins verr , lögðum af stað um 9 leytið í gærmorgun og vorum 13 tíma að keyra og traffíkin var brjáluð, sér í lagi í kringum borgirnar! Það var roosa gott að komast loksins heim um hálf 11 í gærkvöldi.

Nú tekur bara við smá lærdómsvika, ég veit ekkert hvað ég á að gera af mér. Fyrsta sinn í mörg ár sem ég er ekki á leið í jólapróf, ætla að njóta þess í botn og gera allt sem mér hefur dreymt um að gera meðan ég er í prófum. Ég er reyndar að fara í enskupróf, TOFL-próf eins og það kallast víst en ég þarf þetta próf til að komast inn í skóla hér úti. Svo ég verð ekki alveg aðgerðarlaus, svo er bara að þrifa íbúðina í klessu og hlakka aðeins meira til að komast heim í jólin .........ef hægt er :) Verður yndislegt að komast í faðm fjölskyldunnar og hitta alla ! Við eigum sem sagt flug heim 7. desember og verðum komin á fimmtudagsmorgunin 8. desember.

Sendi hlýjar hugsanir til allra sem eru á leið í próf og allra bara!!
Ein og hálf vika og maður er aðeins farin að telja niður.....
XXX
Líf

Wednesday, November 16, 2011

EBAY


Já Ebay, það er svona einu sinni smakkað þú getur ekki hætt! Því miður fyrir VISAkortið mitt. Neinei þetta er ekki orðið alvarlegt en ég er þó komin með 1 stjörnu sem viðskiptavinur á ebay.... Það er svo margt fallegt hægt að fá þar fyrir lítinn pening og svo borgum við yfirleitt ekki sendingarkostnað þar sem við búum í USA
Ætla að leyfa nokkrum myndum að fylgja ::

Eldhúsveggjarskraut

Fyrir ofan rúmið okkar

Púðar í sófann

"Skrifstofan"

Já svo til að útskýra stafina á töflunni, ef einhver sér þá, þá tókum við skötuhjúin ákvörðun i gær. Raggi fær 5 daga frí í næstu viku í tilefni af Þakkagjörðarhátíðinni og á ætlum við að keyra yfir til Richmond, að hitta Díönu og Ragga!!! Ég er spenntust í heimi og það verður án efa mikil gleði og gaman!
Það sem ég hef saknað þeirra!
XXX Líf




Sunday, November 13, 2011

Haust

Aðeins farið að kólna & haustlitirnir eru komnir á stjá! Finnst þetta mjög sjarmerandi árstími.
Notaleg helgi þar sem við skelltum okkur í langa göngu í garði hér rétt hjá íbúðinni, læt nokkrar myndir fylgja.





- Nýjar myndir á fésbókinni!
XXX Líf



Sunday, November 6, 2011

Mánuður í jólaheimsókn og frábær helgi að baki

Tíminn hreinlega flýgur áfram hér í Ameríkunni og enn ein helgin senn á enda.
Raggi og félagar fóru héðan á fimmtudagsmorgni í svokallaða úrslitakeppni, heitir Conference, ég er hreinlega ekki alveg nógu vel að mér í þessum málum. Ég dúllaði mér nú bara þann dag ásamt því að fara í D1 en það er svoleiðis búið að koma mér inn í menninguna og kenna mér Amerískan fótbolta og við spiluðum hann í heila 3 tíma sem var aldeilis hressandi , og það úti. Þetta er alveg erfiðara en ég hélt, sko að kasta þessum bolta og reglurnar eru líka furðulegar en maður kemst inn í þetta allt saman.. Við Esra enduðum svo þennan Ameríska dag á að fara út að borða á mjög svo Amerískum veitingastað. Það er allt búið að vera mjög svo Amerískt, réttara sagt Suðurríkjastemningin er búin að ná hámarki !!

Stuðningsmaður nr. 1

Á föstudagsmorgninum var ég svo sótt af yndislegu hjónunum sem buðu mér með sér til Pensacola þar sem mótið fór fram, á leiðinni stoppuðum við í Troy sem er bær sirka fjórum tímum frá Hunstville, þar sóttum við Haley sem er sem sagt dóttir þeirra og kærasta eins stráksins í liðinu hans Ragga. Áfram héldum við og tæpum þremur tímum síðar vorum við mætt á völlinn og leikurinn að hefjast ..... Alveg gegn planinu og undanförnum leikjum töpuðu strákarnir 3-2 og var þeirra þáttöku því lokið þá helgina. Ég vissi ekki alveg hvað tæki við þar sem búið var að bóka hótelið alla helgina en þau bara sóttu Ragga og Mitch og saman fórum við öll á hótelið í bilað flotta íbúð þar sem við eyddum helginni öll saman og þvílíkt sem það var nú gaman og notalegt :)
Okkur fannst rosalega gaman að komast í ekta Bandarískt umhverfi og upplifa þeirra venjur og ég er endalaust þakklát þeim fyrir að hafa boðið okkur! Ekki nóg með það að þau buðu okkur á hótelið þá var allur matur í boði þeirra því að þau mundu hvernig var að vera fátækur námsmaður, og þegar við þökkuðum fyrir alveg í skýjunum þá sögðu þau einfaldlega : No problem, welcome to the South !
Þetta lýsir fólkinu hérna alveg ennþá betur, yndislegt fram í fingurgóma.
Við á svölunum á hótelinu

En á laugardeginum var ströndin tekin og sundlaugargarðurinn sem innihélt upphitaða laug og heitan pott. Það var ekkert slor að liggja þar en ég verð samt að viðurkenna að ég hreinlega gleymdi stað og stund.... Aðalega stund þó, ég hef aldrei farið til sólarlanda um páska eða jól / áramót og því var tímasetningin , nóvember, ekki alveg að passa við veðráttuna þarna á ströndinni! Endurnýjaði meira að segja bikinífarið mitt, ekki slæmt það. Svo var tekin smá skoðunarferð, keyrðum um svæðið og fórum á risa fiskimarkað og svo var Art Festival í gangi og mikið af fólki og gaman að skoða sig um.
Ferðin átti þó eftir að verða ennþá Amerískari því það var rosalega frægur leikur um sjö leytið á laugardeginum, Alabama að keppa við LSU og það þýddi það að 100 kjúklingavængjir, rækjur og bjór voru á boðstólnum... Svo var bara setið og hakkað í sig og horft á leikinn og stemningin var gífurleg. Gleymi ekki þessari ferð :)


 

Komum svo heim seinnipartinn í dag og nú tekur við róleg vika. Frí á föstudeginum til að heiðra menn sem fórnuðu sér í stríði einhvern tímann í gamla daga. Næsta helgi er svo Thanksgiving og þá verður nú eflaust eitthvað brallað.
Þess má geta að í dag gerðust sú ósköp að klukkan breytti sér, einmitt í þá átt sem er ekki hentug fyrir samskipti okkar við vini og vandamenn, jú við erum sem sagt núna 6 klukkutímum á eftir Íslandi.
Mánuður í jólaheimsóknina okkar, er orðin mikið spennt og er alltaf að komast í meiri og meiri jólagír ! Það má enda nóvember að hefjast :)
Góða viku allir saman :*
ps. nýjar myndir á Facebook

Ykkar Líf

Sunnudagar eru ísdagar, líka hér í USA!