Tuesday, April 24, 2012

Síðasta bloggið, í bili......


Sælt veri fólkið,
Í dag er bara nákvæmlega vika í að við verðum á leið heim á nýjan leik. Það er skrítin tilfinning en hún er líka góð. Það er svo gott að koma heim og hitta allt það góða fólk sem maður á að. Þó að maður viti það allt árið, þá fær maður sérstaka áminningu um það þegar maður eyðir löngum tíma fjarri heimahögum.

En það er aldeilis að verða tómlegt hjá okkur, það hefur rokgengið að selja.
Það sem að við eigum eftir er bíllinn, rúmið og grillið en það eru allt hlutir sem við höfum viljandi verið að fresta enda nauðsynlegustu hlutirnir okkar. Það koma tveir að skoða bílinn í vikunni og rúmið verður tekið á föstudaginn. 

Raggi fer að byrja í prófum núna í vikunni en hann tekur þrjú lokapróf. Hann fór meðal annars í tölfræðitíma í dag þar sem hann hélt kynningu ásamt hópnum sínum. Það kom honum heldur betur á óvart að bekkurinn eins og hann lagði sig klæddist í jakkaföt og dragt svo honum tókst aldeilis að standa uppúr sem öðruvísi gæjinn. En það gekk vel hjá hjá honum þrátt fyrir jakkafataleysið. 

Talandi um próf þá fá nemendur í Huntsville útrás fyrir prófakvíða
með því að skemma bíla. Undarlegt en satt.

Ég er búin með tvo hluta af sex í mínu námi. Ég upplifi mig aftur í grunnskóla þar sem við krakkarnir kepptumst við að vera sem fyrst með „Viltu Reyna?“ bækurnar í stærðfræði. Ég hef rosalega gaman að náminu og finnst því ekkert leiðinlegt að geta brunað áfram í því. Það er það góða við svona fjarnám oft, að maður er algjörlega á eigin hraða sem hentar einstaklega vel núna þegar það er ekki margt annað á könnunni.

Raggi fór á lokahóf liðsins á föstudaginn þar sem var haldið smá matarboð og hann kom heim hlaðin verðlaunum. Hann er nú ekki mikið fyrir uppstilltar myndir svo það var sama hvað ég reyndi, ég fékk ekki mynd af drengnum með gripina. En ég lét það ekki stoppa mig og tók bara samt mynd af þeim.
Hann fékk tvær viðurkenningar á síðustu önn og viðbættist „Leikmaður ársins“ styttan svo það er ekki leiðinlegt að enda svona vel.
Er svo stolt af honum !



Helgin var róleg, við vorum í söluhugleiðingum og tókum á móti fólki sem hjálpaði okkur að tæma íbúðina og kaffipása á Panera Bread;

Frekar ljúffengur snúður




Við náðum nú samt að halda eitt lokamatarboð á fimmtudaginn þar sem síðasta kvöldinu með húsgögnum var fagnað ásamt strákahópnum. Við grilluðum okkur hamborgara, kjúkling og steikur og tókst það mjög vel til.

Grillarinn 

Strákarnir ánægðir með matinn
Leiðin heim endaði í algjöru rugli þar sem við ákváðum að fara á rúntinn sem var nú bara hið besta mál fyrir utan þegar við vorum stödd fyrir utan eitt flottasta húsið í fínasta hverfinu þá mættum við bara augnliti til augnlitis dádýrahópi. Það mátti heyra saumnál detta þegar forvitið ungt fólk mætti augnaráði nokkurra dádýra sem átti líklega von á öllu öðru en félagsskap.

Það er svolítið skemmtilegt að dýralífið hérna í Huntsville er mjög áhugavert. Í skóginum rétt hjá heima hjá okkur eru dádýr, það býr pokabjörn í ruslagámnum, það sjást reglulega úlfar á götunum og íkornar sem lita tilveruna með krúttileika sínum.

Talandi um rugl þá vill það stundum gerast þegar við erum í félagsskap með strákunum á Eðvarðsgötunni þá er ekki gott að segja á hverju tekið verður uppá. Smá mánudagskvöldsheimsókn endaði í 5 tíma heimsókn og við enduðum útað borða klukkan að verða tvö um nótt á skyndibitastað í nágrenninu. Stundum væri ég alveg til í að staðirnir væru opnir aaðeins lengur svo maður hefði valkost um annað en hamborgara eftir klukkan 10 á virkum kvöldum en það er oft ekki svo gott.

Ferskir á nætursnarli

Kannski er þetta bara merki um að B-týpan sé orðin aðeins of áberandi hjá okkur skötuhjúunum en það vill stundum gerast þegar minna er um rútinu.

Dagurinn í dag fór í rækt og svo lærdómsmaníu heima hjá strákunum, þeir voru ekki alveg eins duglegir og ég. En það voru fótboltaleikir, FIFA og fleira að skemma fyrir. Hádegisverðurinn var tekinn í kirkju hér í nágrenninu en hún býður námsmönnum í frían hádegisverð á þriðjudögum, fínasti matur alveg hreint.


Leikurinn skall á og minna varð um lærdóm

En svo komust allir í gírinn !

Svo nú er ekkert annað í stöðunni en að njóta síðustu daganna, það spáir ljómandi góðu veðri það sem eftir lifir viku svo maður nær sér jafnvel í smá lit.


Síðustu færslunni í Huntsville er formlega lokið enda orðin alveg nógu löng. Mér þykir orðið svo vænt um bloggið að ég lofa engu um að hætta með það, enda er það ekki fjarlægðin sem skiptir máli þegar maður getur fengið svona fína útrás á veraldarvefnum. Hvort sem það er svo lesið eða ekki :)

Topp 5 Listi
-yfir hluti sem ég held að ég eigi eftir að sakna mest frá Huntsville:

1. Fataherbergið & að versla ódýr föt!
2. Veðrið
3. Mjúka klósettsetan á Eðvarðsgötu
4. Arinin í stofunni
5. Almennilegheit fólksins í búðum og á götum borgarinnar

Svo ekki sé minnst á allt frábæra fólkið sem við höfum fengið tækifæri til að kynnast!

Kæru vinir & vandamenn nær og fjær (allavega flestir)

Sjáumst eftir viku á Flórídaskaganum og nesinu góða!
Ykkar
Líf

Tuesday, April 17, 2012

2 vikur í heimkomu, söluhugleiðingar & kveðjustundir

Ég held að það sé hreinlega kominn tími á smá blogg.

Við erum orðin ein aftur í kotinu en tengdafjölskyldan fór snemma á laugardagsmorgun. Við nutum laugardagsins í sólinni, kíktum á leikinn hjá strákunum, settumst á kaffihús og enduðum svo á að taka allan skarann heim til okkar í tennis, pizzu og smá skemmtun. 

Keppnis

Sundlaugin er alltaf notaleg

Enduðum á Mickey's í langþráð Karokí, sem var áhugavert. Ég vil meina að enn eina ferðina hafi Íslendingarnir sigrað Karokí Huntsville borgar, meðal annars með laginu "Don't go breaking my heart" sem að minn heittelskaði Elton John og Kiki Dee gerðu ódauðlegt ásamt mínum hinum heittelskaða og ég hugsa að það sé orðið algjörlega ódauðlegt núna! En þetta var rosalega skemmtilegt kvöld og frábært að dusta aðeins rykið af dansskónum. 

Stundum átta ég mig ekki alveg á þeim.......

Raggi - Felix - Emil

Flottir að vanda!

Þið misstuð af miklu :-)
Nú sunnudagurinn fór í sunnudagsrúnt, eins og gengur og gerist á íslenskum sunnudögum. En Raggi sýndi mér golfvöllinn sem að hann og pabbi hans spiluðu á síðastliðinn föstudag. Það var ekkert smáræði og íbúðarhverfið í kring var ekkert ofan á brauð neitt. En það var fallegur dagur, sólin skein og það var mjög hlýtt. 

Útsýni af hæðinni á leiðinni á
Golfvöllinn

Vallarhúsið



Nú er það hins vegar orðið formlegt að við Raggi erum að koma heim eftir 2 vikur, alveg! Þannig er mál með vexti eins og þið hafið jafnframt lesið um að þá settu meiðslin stórt strik í reikninginn. Reyndar höfum við kost á að vera áfram að öllu óbreyttu í haust en fótboltinn er of stór hluti í þessu öllu saman og Raggi vill jafna sig heima og jafnframt klára gráðuna sína á styttri tíma í háskóla heima. En við höfum haft nægan tíma til að hugsa þessi mál, meta kostina og galla og við erum sátt við ákvörðun okkar og erum þess fullviss að tækifærin og ævintýrin verða alltaf handan við hornið. Maður þarf bara að hafa augun opin fyrir þeim!

Svo nú er bara að njóta alls þess sem að Bandaríkin hafa uppá að bjóða, við höfum átt yndislega tíma hérna, kynnst frábæru fólki og þessir mánuðir vega stórt í reynslubankanum hjá okkur báðum. 

Í gærkvöldi byrjuðum við að auglýsa bílinn og húsgögnin okkar. Við vissum nú svo sem ekkert við hverju ætti að búast, enda aldrei gert neitt slíkt áður í öðru landi. Það má með sanni segja að það hafi gengið vonum framar! Auglýsingin fór inn í gærkvöldi um 10 leytið, klukkan hálf 11 hafði ég fengið 23 nýja tölvupósta með alls kyns spurningum um söluhlutina. Svo í morgun þá stoppaði síminn ekki frá sirka 9 til hádegis.
Svo kom maður til okkar fyrir kvöldmat og keypti eldhúsborðið, stólana, sjónvarpið, sjónvarpsskenkin, stofuborðið og kommóðu. Þar fór nánast allt sem var til sölu svo að það var alls ekki slæmt. Hann mun fá íbúðina sína afhenta á föstudaginn og þá hjálpum við honum að setja allt í bílinn og verðum nokkurn veginn húsgagnalaus í viku en það er til margt verra held ég!

Ég hugsa að stór hluti þess hvers vegna þetta gengur svona vel er að hér í Huntsville koma margir í skóla, vinnu eða annað slíkt og þá aðeins tímabundið. Eins og maðurinn sem kom í dag var aðeins að fara vera hér í  einhverja 9 mánuði vegna vinnu og þetta fólk þarf engin rosalega dýr og flott húsgögn. 

En þetta lofar aldeilis góðu, margir að hringja og spyrjast fyrir um bílinn. Einn kom í dag að skoða, tveir væntanlegir á morgun þannig að þetta virðist bara allt ætla að reddast frábærlega. 

Í kvöld fengum við góðan gest í kveðjukvöldmat. Það var hann Jeremy nágranni okkar, en hann er að fara í vinnuferð á morgun og verður ekki kominn fyrr en við erum farin aftur til Íslands. Við elduðum kjúklingarétt og tilheyrandi og við áttum skemmtilegt spjall eins og alltaf. Við munum án efa sakna hans en við ætlum að halda sambandi svo að það verður bara skemmtilegt. Ég gerði tilraun með mína fyrstu gulrótarköku og ég tel hana nú bara hafa heppnast nokkuð vel. Hef aldrei gert svona tveggja hæða köku með kremi á milli svo að þetta var mikil en skemmtileg áskorun.

Félagar í faðmlögum



Næstu dagar munu fara í lærdóm, vesenast í sölumálum og njóta þess í leiðinni að gera eitthvað rosalega Amerískt. Í sumar ætla ég aldeilis að breyta til og vinna í vinnuskólanum sem flokkstjóri! Ég held að það verði spennandi að prófa eitthvað alveg nýtt svo ég hef miklar væntingar fyrir komandi sumri. 

Njótið vikunnar kæru lesendur,
ykkar
Líf.

Thursday, April 12, 2012

Geimsafnið, Indversk veisla & bílaþrif

Já það hefur heldur betur ýmislegt drifið á daga okkar hér á Vatnshlíðarveginum.

Við skötuhjúin elduðum í fyrsta sinn páskamat saman fyrir gestina okkar og tókst það bara nokkuð vel til, þó ég segi sjálf frá.
Raggi Le kom yfir og við buðum uppá nautasteik, kartöflur, sveppasósu & ferskt salat. Það klikkar einhvern veginn aldrei að fá sér nautasteik, það er bara þannig.

Í grænmetisskurði
Allt að verða klárt

Steikarsmiðurinn

Lóa skvísa að leggja á borð

Páskarnirfríið er ekkert mjög heilagt hérna úti, miðað við að flestir eru kristnir hér á svæðinu. En það var til dæmis ekki einn dagur í fríi í skólanum hjá Ragga svo að það var heldur öðruvísi en við höfum vanist. En það er sennilega bara leyst með vorfríinu svokallaða um daginn.

Annar í Páskum mánudagurinn var nýttur í menningar / skoðunarferð. En við létum loks verða að því að kíkja á geimsafnið sem er nálægt okkur en Huntsville er einmitt frægt fyrir þetta safn og oftar en ekki talað um borgina sem "The Rocket City" eða Eldflaugarborgin. Safnið var mjög áhugavert, að vísu að stórum hluta lesefni en einnig voru geimflaugar sem hægt var að skoða og jafnvel fara inní. Ótrúlegt að hugsa til þess að menn voru að brasa í þessu frá árinu 1950, en svoleiðis var það nú samt.

Hér koma nokkrar myndir sem að ég tók í geimsafninu ;





Maður er svo flippaður stundum 

En vikan hefur verið mjög fín, við erum búin að þræða verslanir og sýna gestunum borgina. Ég hef líka verið að bardúsa í nýja skólanum en ég fékk bækurnar í vikunni. Það er alveg dásamleg skemmtun og ég nýt hverrar mínútu af náminu, grínlaust! Svo er ég alltaf að reyna að hlaupa með, bætti metið mitt í dag. Á að vísu  eftir að mæla hvað ég hljóp langt en krampinn í lærunum á eftir vill meina að ég hafi hlaupið rúmlega maraþon.

Í dag tókum við svo uppá því að taka Fordinn í gegn, það varð enginn smá breyting. Við sápuðum hann, bónuðum, ryksuguðum og þrifum hann allan að innan. Ég fékk sýnikennslu í hvernig á að þrífa felgur og ég vil meina að ég hafi staðið mig með prýði enda glönsuðu felgurnar á gripnum. Ástæða þrifanna er nú reyndar aðalega sú að kagginn er kominn á sölu. Nú er bara að vona að hann seljist greyjið, en hann hefur nú alltaf verið ágætur inná milli.


                                                    Já það er sko gaman að þrífa bíla í USA !


Takið sérstaklega eftir glansandi felgunum!
Hvað haldið þið !?


Kvöldmaturinn í kvöld var ekki af verri endanum, við smelltum í Indverska veislu. Raita-sósa, kjúklingaréttur sem sambýlismaðurinn marineraði yfir nótt, grjón og heimatilbúið naan. Mjög vel heppnað!



Ég er ekkert lítið heppin með þennan!




Gestirnir munu halda heim á leið á laugardagsmorgunn um 7 leytið en þá verður tómt í kotinu á ný. En mér skilst að drengirnir á Edvardsvegi munu mæta með fyrsta strætó enda búnir að sakna okkur þessar elskur.
Svo styttist aldeilis í heimkomu okkar en við eigum flug heim 1. maí frá Huntsville. Í þetta sinn munum við stoppa í Washington og náum vonandi að eyða deginum þar.

Fleira er ekki í fréttum að sinni,
veriði sæl.

- Líf

Saturday, April 7, 2012

Öðruvísi Páskar

Þá er að renna upp páskadagur, heldur öðruvísi en ég hef vanist í gegnum árin.

Það er þannig að ég er ein af þeim sem hef aldrei verið erlendis um páskahátíðina, þó gæti verið að ein keppnisferð í badmintoninu hafi hitt á páska fyrir einhverjum árum. Allavega er staðan svoleiðis að það spáir um 25 stiga hiti og sól og maður er ekki alveg að átta sig á tímasetningunni. Ég er búin að vera hálf ruglið í tímanum aðalega að sökum veðursins. En það eru páskaegg komin í hús, nautasteikin bíður þess að komast á grillið, meðlætið í ísskápnum og ís í frystinum. Svo að þetta verður alls ekki slæmt, öðruvísi gott bara.

Við komum heim frá Atlanta í kvöld um hálf 9 leytið. Ferðin gekk vel og var afar notaleg, gistum á þessu fínasta hóteli í útjaðri borgarinnar. Fimmtudagurinn fór í ferðalag og svo var H&M búðin aðeins skönnuð, það er alltaf gaman. Nýja línan var mætt í búðina en ég var nú ekkert að missa mig ! En ég fjárfesti þó í þessum dásamlegu stuttbuxum sem mér þykir afar vænt um;

Litirnir í þeim finnst mér æði .....

Að snæðingi fyrsta kvöldið

Á föstudaginn langa, skrítið að skrifa það þar sem ég gerði mér enga grein fyrir að um þann dag væri að ræða, þá skoðuðum við Aguariumið eða Sjávardýragarður. Þeir vilja meina það að þetta sé sá allra stærsti í öllum heiminum og eftir ferðina þá er ég ekkert að efast um það. Við sáum hvali, froska, alls kyns fiska og fleiri furðudýr. Mannmergðin var svakaleg og við náðum auðveldlega að eyða deginum þarna, við enduðum góðan dag á Cheese-Cake Factory sem að stendur alltaf fyrir sínu.

Nokkrar myndir úr garðinum;


Sætur þessi

Fiskar í bland

Frekar ljótir 

Sverðfiskur

Krossfiskur


Hægt var að fá að kafa með fiskunum

Risastórt fiskabúr með öllum skaranum

Pós með fiskunum!

Planið var að keyra síðan beint heim á laugardagsmorguninn en við ákváðum í forvitni að keyra aðeins út fyrir borgarmörkin og kanna margumrædd Outlet, eða réttara sagt markaði. Við keyrðum einhverjar 60 mílur og komum meðal annars við í veiðibúðinni stóru þar til að við fundum staðinn. Enginn smá staður þar sem fyrirtæki á borð við Nike, Adidas, Puma, Under Armour, DKNY, Converse, Nine West, Reebok, Aldo og fleiri fleiri voru með markaði á vörum sínum. Þetta voru í raun aðeins eldri týpur af vörum í bland við nýtt og aldeilis hægt að gera góð kaup. Við íþróttafötuðum okkur aðeins upp og vorum himinlifandi með afraksturinn;

Stolt í nýja NIKE gallanum! nú skal hlaupið!
(...........eftir páska þó)

Mæli með þessu ! 

Vikan er nokkuð óráðin, stefnum á að nýta sólina sem allra mest og svo er planið að kíkja á geimsafnið sem er jú einu sinni einkennismerki fyrir Huntsville.

Ég óska ykkur gleðilegra páska og ég vona að þið hafið það sem allra best
Knús, Líf.

Monday, April 2, 2012

H&M unaður


Það er eitthvað svo yndislega dásamlegt við nýju sumarlínuna frá H&M : 
Njótið :)

***
 

-

***


Ég veit ekki hvort H&M saknar mín jafn mikið og ég sakna H&M. En ég mun halda þangað á fimmtudaginn, þangað til verð ég að láta myndir duga. Við tengdó alveg liggjum yfir þessu. Svo er líka kjörið sparnaðarráð að láta sig bara dreyma og skoða myndir, vona jafnvel að ef maður fylli netkörfu nógu vel endi með að búðin gleðji mann með því að senda manni vörurnar frítt, en það er kannski óþarfa bjartsýni.
- Líf