Saturday, December 3, 2011

Pælingar um lífið & tilveruna

Ég hef lengi verið að velta því fyrir mér að skrifa þessa færslu .
Ég hef þó ákveðið að láta hana flakka þótt aðeins verði fyrir mig sjálfa.

Ég lauk framhaldsskólanámi á þremur árum en ég útskrifaðist vorið 2010.
Hvað skyldi gera næst, hvað beið mín handan við hornið?
Ég var mjög tvístígandi, langaði  að klára háskólanám, drífa skólann af, klára þetta bara allt og drífa mig á vinnumarkaðinn.
Ég bið ykkur að misskilja ekki, ég var ekki undir neinum þrýstingi frá fjölskyldu eða öðrum að fara beint í háskólann. Ég var undir þrýstingi frá sjálfri mér, af staðalímyndinni að vera búin með skólann á sem skemmstum tíma og verða sjálfstæð í góðri vinnu og svo framvegis. Ég var svo staðráðin í að finna mér nám, já ég hafði ekki hugmynd um hvað ég vildi læra. Ég fór meira að segja til námsráðgjafa til að taka áhugasviðspróf, hún nefndi það við mig hvort ég hefði íhugað að gera eitthvað annað en að fara beint í háskólann.  Nei!? Afhverju í ósköpunum, reddið mér bara prófinu og ég finn mér nám og verð hamingjusöm í skólanum og því næst framtíðar vinnunni.
Nú prófið sýndi lyfjafræði og það lá nú beinast við að velja það um leið. Það fór að styttast í útskrift og ég var nú ekkert alsátt með mína ákvörðun en hunsaði togstreituna í höfðinu á mér. Lyfjafræðin er nú einu sinni svo „praktískt“ nám sjáið til.
Haustið eftir hóf ég nám í lyfjafræði, ég lærði samviskusamlega, kynntist frábæru fólki en ég fann það innst inni að þetta var engan veginn minn tebolli.
Hvað gerir 19 ára stelpa sem er ekki að finna sig í háskólanáminu sínu, jú hún skiptir um háskólanám. Mér fannst nógu slæm tilfinning að segja fólki að ég hafi „gefist upp“ á náminu sem ég var svo staðráðin í að læra. Hvað þá ef ég hefði haft bein í nefinu til að taka mér örlitla pásu frá skóla, þó ekki nema til að finna út hvað ég virkilega vildi læra.
Ég var byrjuð í líffræði strax í janúar og ég fann það nánast frá degi eitt að þetta var heldur ekki nálægt því sem ég vildi gera í lífinu en ég vildi ekki svíkja sjálfa mig. Með hangandi haus og vinnu með skóla komst ég nú í gegnum önnina.
Á þessum tíma tók ég ákvörðun í lífinu; Hvað sem tæki við eftir þetta skyldi sko vera eitthvað sem ég virkilega myndi vilja gera.... Hvort sem það væri skóli eða eitthvað allt annað. Það varð úr og ég fór ásamt Gunnþórunni vinkonu minni í hjálparstarf til Afríku. Þetta hefur mótað mig fyrir lífstíð að kynnast öðrum menningarheimi og sjá aðstæður sem ég gat aðeins ímyndað mér í fréttatímanum.
Nú er ég komin alla leið til Bandaríkjanna þar sem ég hef notað síðustu vikur í að kynnast nýju fólki, læra tungumálið betur og næla mér í reynslu.
Ég stefni á að fara í skóla í janúar, að læra mannauðsstjórnun. Það hljómar í mínum eyrum virkilega spennandi nám og ég fæ kitl í magann við það eitt að hugsa um verkefnaskil. Hvað les ég útúr því ? Að ég er tilbúin í háskólann.
Það sem ég er í raun að reyna að koma frá mér er engan veginn það að allir eigi að fara í til Afríku í hjálparstarf. Frekar vil ég hvetja fólk til að hugsa sig vel um eftir framhaldsskólann. Langar mig að fara á vinnumarkaðinn, í enskuskóla, hjálparstarf, háskóla, iðnskóla eða eitthvað allt annað? Þó að við byrjum á einhverju sem okkur lýst ekki á verum þá ófeimin við að bakka út úr því og prófa annað. Kannski mun ég klára þetta nám og læra svo eitthvað allt annað seinna meir í framtíðinni.
Einnig verð ég að nefna í þessu sambandi hana móður mína, þá yndislegu manneskju, sem langaði að læra að vera nuddari og skellti sér á það og er á fullu að vinna í því núna.
Hvað sem það er sem við gerum og hvenær, gerum það á okkar forsendum og verum sátt við okkur sjálf og okkar ákvörðun. Sama hvað aðrir segja að sé praktískt  og hvað ekki, þá lifum við bara einu sinni.

Líf Lárusdóttir
skrifað 17. nóvember 2011

5 comments:

  1. Mikið hvað ég er sammála þessari grein að því leyti að það einfaldlega gengur ekki upp að fara að læra eitthvað bara til þess eins að læra eitthvað í þeirri von um að finna sig í því.
    Mér finnst bara því miður vera svo mikið litið á fólk sem ekki fer strax í menntaskóla eftir grunnskóla eða háskóla eftir menntaskóla að þeir séu einfaldlega einhvernveginn að gefast upp á því að vera í skóla (og þar með "gefast upp á eigin framtíð"?) og fara því að vinna og "eiga eftir að enda sem kassastarfsmenn í Bónus að eilífu" - því það er endilega það hræðilegasta sem maður gæti gert?
    Stundum þarf fólk frið frá öllu áreiti skólans til þess að lifa smá, þýðir ekki að það sé að missa af öllu öðru.
    Ég tek sem dæmi pabba minn sem kláraði menntaskóla núna á þessu ári, hann er fæddur 1945, og segi með því að tíminn er ekki að vinna gegn þér sama hvað þú vilt vera.
    Ég er mjög ánægð að þér vegni vel elsku Líf og vona innilega að lífið þarna í Ameríku sé eins dásamlegt og myndirnar þaðan benda til!

    ReplyDelete
  2. Það er nákvæmlega málið!
    Takk fyrir góða kveðju, vona að þú hafir það líka sem allra best :*

    ReplyDelete
  3. vá vel sagt! fólk verður að fá að átta sig á því sem það vill gera og hvort sem það er að fara í háskóla beint eftir menntó, eignast börn eða ferðast um Asíu þá er það bara þeirra mál og enginn á rétt á því að dæma fólk eða líta niður á það fyrir þann kost sem það velur sér og líður vel með. :)

    ReplyDelete
  4. maður á að læra fyrir sjálfan sig og engan annan. ég hataði grunnskóla og þegar ég kláraði hann hefið ég ekki frekar farið í framhaldskóla frekar en fangi hefði boðist til að fara aftur sjálfviljugur í fangelsi. en núna horfi ég á hvað ég er að gera og Karen dóttir mín. við erum báðar að læra það sem okkur langar til og erum svo spenntar yfir okkar námi. hún tvítug í snyrtifræði og ég 42 í master í sérkennslu. báðar búnar að finna okkur á okkar forsendum. það er aðeins hægt að sanna að við eigum eitt líf hvað svo sem maður trúir á. þannig að reynum að fá sem mest út úr því lífi hvort sem það er skóli eða skóli lífsins. hlakka til að sjá ykkur um jólin, krútt. bið að heilsa manninnum. kv, Kristín sveins (hans Einsa)

    ReplyDelete